Um hvað er deilt í íslenskum stjórnmálum í dag? Það er ekki á auðvelt að svara þeirri spurningu.Ungt fólk,sem er að kjósa í fyrsta sinn á í erfiðleikum með að átta sig á mun flokkanna. Munurinn hefur minnkað og stundum finnst mönnum munurinn á flokkunum vera sáralítill.
Deilt um stóriðju
Í dag er helst deilt um stóriðju og umhverfismál.Það mál var eitt helsta deilumálið í síðustu kosningum. Vinstri græn börðust þá gegn stóriðju og vildu stöðva stóriðjuframkvæmdir með öllu. Samfylkingin vildi stöðva stóriðjuframkvæmdir í 5 ár á meðan athugað væri hvað þyrfti að vernda í nátturu landsins og hvar væri óhætt að virkja síðar.Sjálfstæðisflokkurinn vildi óbreytta stefnu í stóriðjumálum. Framsókn sló úr og i. Annað mál,sem mikið var rætt um fyrir þingkosningarnar, var velferðin,velferðarmálin og kjör aldraðra og öryrkja. Allir flokkar sögðust vilja bæta kjör aldraðra og öryrkja,þar á meðal frjálslyndir en Samfylkingin setti fram róttækustu stefnumálin í velferðarmálum.
Kvótamálinu sópað undir teppið
Ekkert var rætt í þingkosningunum um stærsta mál þjóðarinnar, kvótamálið. Því var sópað undir teppið.Samfylkingin er með góða stefnu í auðlindamálum og kjarni hennar er sá,að gjald eigi að koma fyrir afnot allra auðlinda, þar á meðal auðlinda sjávar. Hinir flokkarnir hafa mjög óljósa stefnu í auðlindamálum.
Lítið er rætt um grundvallaratriði eins og eignarhald atvinnutækjanna.Ástæðan er sú, að “vinstri” flokkarnir virðast hafa látið af andstöðu við einkarekstur.Allir flokkar virðast því í dag hallast að því,að einkarekstur sé heppilegasta rekstrarformið. Áður var þetta eitt helsta ágreiningsmál flokkanna.Helst eru
það Vinstri græn eða einstakir þingmenn þar sem enn vilja opinberan rekstur að einhverju leyti,a.m.k.Ég tel,að alltof langt hafi verið gengið á braut einkavæðingar. T.d. tel ég,að halda hefði átt einum af ríkisbönkunum i eign ríkisins til þess að tryggja nægilega þjónustu við landsbyggðina.Ég er andvígur einkavæðingu orkjufyrirtækja.Hlutafélagavæðing Orkuveitunnar slær mig illa og gæti verið fyrsta skrefið í einavæðingu fyrirtækisins.
Skattar einstaklinga hafa hækkað
Í stað ágreinings um rekstrarform fyrirtækjanna eru nú komnar deilur um skattamál og velferðarmál.
Talsverðar deilur hafa verið um skattamálin undanfarin ár. Fyrri ríkisstjórn hafði þá stefnu að létta skattbyrði fyrirtækjanna en auka skatta á almenningi.Skattar á fyrirtækjum voru lækkaðir í 18% en skattar á einstaklingum ( almenningi ) eru yfir 35%. Fjármagnstekjuskattur er aðeins 10%.Skattleysismörkin hafa ekki fylgt launum eða verðlagi .Ef svo hefði verið frá 1988 væru skattleysismörkin yfir 140 þúsund í dag en eru aðeins 90 þúsund á mánuði.Af þessum sökum hafa skattar einstaklinga þyngst mikið. Í stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar segir,að lækka eigi skatta einstaklinga á kjörtímabilinu. Væntanlega verður staðið við það.
Nauðsynlegt er að endurskoða allt kerfi almannatrygginga með það að markmiði að einfalda kerfið og afnema að mestu allar skerðingar og tekjutengingar.Stórhækka þarf lífeyri aldraðra og öryrkja þannig að hann dugi til framfærslu í samræmi við neyslukönnun Hagstofu Íslands um meðaltals útgjöld einstaklinga til neyslu.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 27.september 2007
|