Nú er það aðalbaráttumál ríkisstjórnarinnar að selja Símann en ríkið á mest allt hlutaféð í því fyrirtæki.Eins og menn muna var Síminn ríkisfyrirtæki en síðan var fyrirtækinu breytt í hlutafélag.Átti ríkið þá allt hlutaféð en þegar misheppnuð tilraun var gerð til þess að selja Símann einkaaðilum eignuðust einstaklingar lítilsháttar af hlutafé.
Hvers vegna þarf að selja?
Hvers vegna þarf að selja Símann? Þarf ríkið að losa sig við taprekstur vegna þess að fyrirtækið sé illa rekið?Nei Síminn er vel rekið fyrirtæki sem skilar miklum gróða. Svo var einnig þegar Síminn var hreint ríkisfyrirtæki og því hafði ekki verið breytt í hlutafélag. Það hafa því aldrei verið nein rök fyrir því að selja Símann til einkaaðila.Rök einkarekstursmanna um að einkafyrirtæki séu betur rekin en ríkisfyrirtæki eiga ekki við um Símann. Hér er dæmi um fyrirmyndar ríkisfyrirtæki sem er og hefur verið mjög vel rekið. Það eru engin rök fyrir því að selja Símann til einkaaðila og best er fyrir ríkið að eiga fyrirtækið áfram. Á þann hátt getur það einnig tryggt allri landsbyggðinni góða þjónustu og eflt dreifikerfi Símans út um allt land.
Ekki skilyrði frá ESB
Aðalatriðið í sambandi við Símann er að það starfi á sama grundvelli og önnur fyrirtæki í þessari grein,þ.e. njóti engra forréttinda þó ríkið eigi mestallt hlutaféð. Ef Síminn sem hlutafélag nýtur engra forréttinda frá ríkinu og verður að keppa á heilbrigðum samkeppnisgrundvelli við önnur fjarskiptafyrirtæki eins og Og Vodafone þá skiptir engu máli hvort ríkið á meiri hluta hlutafjár eða einhverjir einkaaðilar.Það er ekkert skilyrði frá ESB ,að ríkið eigi ekki hlutafé í slíku fyrirtæki.. Það er hins vegar meiri hætta á því,að einkaaðilar svíkist um að veita landsbyggðinni næga þjónustu og það er meiri hætta á því að einkaaðilar í þessari grein stofni til verðsamráðs og reyni að halda verðinu uppi á þjónustunni, ef ríkið er alveg komið út úr greininni.
Aðild Símans að Skjá 1
Fyrir skömmu keypti Síminn fjórðung í Skjá 1.Er talið,að með þeirri ráðstöfun hafi Síminn viljað komast inní sjónvarpsrekstur. Fjárhagsstaða Skjás 1 mun hafa verið mjög slæm. Þessi ráðstöfun Símans gagnast því báðum aðilum: Hún bætir fjárhag Skás 1 og veitir Símanum aðild að sjónvarpsrekstri. Sumir hafa gagnrýnt það,að “ríkisfyrirtæki” væri að kaupa stóran hlut í einkasjónvarpsstöð.En ég sé ekkert athugavert við það. Síminn er hlutafélag og keppir á samkeppnisgrundvelli. Norðursljós svöruðu með því að kaupa 35% í Og Vodafone. Þar með eru Norðurljós komin inn í stórt fjarskiptafyrirtæki. Áður voru Norðurljós í viðræðum við Símann um samstarf en þær viðræður fóru út um þúfur.Ljóst er,að samkeppni milli þessara tveggja risa á fjarskipta og fjölmiðlamarkaði verður mjög hörð.
Samkeppni er trygg
Samkeppnin er trygg á fjarskipta og fjölmiðlamarkaði. Það er því engin þörf á einkavæðingu Símans til þess að tryggja hana.Með fyrri reynslu í huga má telja víst,að stjórnvöld mundu ekki standast þá freistingu að hafa áhrif á það hver fengi að kaupa Símann. Ef stjórnvöld ætla að afhenda Símann einhverjum gæðingum svo þeir geti braskað með fyrirtækið er verr af stað farið en heima setið. Það er best að hafa Símann óbreyttan í því formi,sem hann er í nú,þe. hlutafélag að mestu í eigu ríkisins.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 28.sept. 2004 |