Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gerði málefni fjölskyldunnar og barna að umtalsefni í áramótaræðu sinni. Vék hann m.a. að skýrslunni um fátækt barna á Íslandi, sem birt var fyrir síðustu jól. Forsetinn taldi að hlúa þyrfti betur að fjölkyldunni en gert hefði verið og foreldrar þyrftu að eyða meiri tíma með börnum sínum.Það þyrfti að stytta vinnutímann til þess að auðvelda þetta .Forsetinn sagði, að lág laun hjá mörgu fólki væru hluti vandans.Hér skal tekið undir orð forseta Íslands í þessu efni.
Barnabætur rýrðar um milljarð á ári
. Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður segir, að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafi rýrt barnabætur um 10 milljarða króna að verðgildi til síðustu 10 árin eða um 1 milljarð á ári. Það er ekki von á góðu, þegar stjórnvöld standa þannig að málum gagnvart börnum og foreldrum þeirra. Ísland er með ríkustu löndum heim en samt getur ríkisstjórn landsins ekki búið betur að börnum landsins en raun ber vitni. Í stað þess að auka barnabætur að verðgildi til er stöðugt verið að rýra þær.Hið sama er að segja um skattleysismörkin. Ef þau hefðu fylgt launavísitölu frá 1988 væru þau í dag 136 þúsund krónur á mánuði en þau eru aðeins 90 þúsund. Þessi staðreynd á stærsta þáttinn í því,að skattar hafa undanfarin ár stöðugt verið að hækka á launafólki og einkum þeim lægst launuðu.
Ójöfnuður hefur aukist
Undanfarið hafa talsmenn Sjálfstæðisflokksins reynt að gera útreikninga um fátækt og ójöfnuð á Íslandi tortryggilega. Hafa þeir sagt, að vegna nokkurra auðmanna á Íslandi mælist nú meiri fátækt og ójöfnuður en áður.Þetta er misskilningur eða útúrsnúningur talsmanna Sjálfstæðisflokksins. Stefán Ólafsson prófessor leiðrétttir þetta í stuttri grein í Fréttablaðinu 4.janúar. Hann segir, að í útreikningum um fátækt og ójöfnuð sé ekki byggt á meðaltali tekna heldur miðgildi.Stefán segir:
“Miðgildi tekna eru þær tekjur sem eru í miðju tekjustigans, þ.e. þar sem jafn margir hafa tekjur fyrir ofan og fyrir neðan viðkomandi tekjur. Út frá slíku miðgildi er reiknað hlutfall fátækra en ekki út frá venjulegu meðaltali. Upphæðir hæstu teknanna skipta því venjulega ekki máli fyrir slíkar mælingar”
85 milljarðar hafðir af almenningi
Ríkisstjórnin hefur haft 35 milljarða af almenningi með því að láta skattleysismörkin ekki fylgja launavísitölu eins og eðlilegt hef’ði verið. Ef skattleysismörkin hefðu fylgt launavísitölu frá 1988 hefðu tekjur almennings orðið 35 milljörðum meiri en þær hafa orðið.Skattarnir hefðu verið lægri sem þeirri upphæð nemur.Álíka upphæð en þó nokkuð hærri eða 40 milljarðar hafa verið hafðir af öldruðum sl. tæp 12 ár vegna þess að lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum hefur ekki hækkað í takt við laun verkafólks eins og lögbundið var til 1995 og lofað var af stjórnvöldum að mundi haldast. Aldraðir, barnafólk og almenningur allur á því stórar upphæðir inni hjá ríkinu eða alls 85 milljarða króna.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 17.febrúar 2007