Þær fréttir berast nú frá Bandaríkjunum,að Bush forseti muni í vikunni fyrirskipa,að fram fari óháð rannsókn í Bandaríkjunum á villandi upplýsingum leyniþjónustu Bandaríkjanna um gereyðingarvopn í Írak. Svo háværar raddir eru nú um það í Bandaríkjunum,að slík rannsókn fari fram,að Bush kemst ekki hjá því að samþykkja hana.
EINNIG Í BRETLANDI ?
Breski íhaldsflokkurinn hyggst leggja fram í breska þinginu tillögu um,að sams konar óháð rannsókn fari fram í Bretlandi. Er talið líklegt,að Blair samþykki hana. Bresk rannsókn ætti einnig að rannsaka upplýsingar bresku leyniþjónustunnar um gereyðingarvopn í Írak. En bæði löndin,Bandaríkin og Bretland, byggðu á upplýsingum frá leyniþjónustum sínum,þegar ákvörðun var tekin um innrás í Írak.
ÞARF EKKI RANNSÓKN Á ÍSLANDI?
En hvað með Ísland? Þarf ekki einnig að fara fram óháð rannsókn á Íslandi um það hvers vegna Ísland studdi innrás í Írak? Hvaða upplýsingar lágu fyrir,þegar Ísland tók ákvörðun? Var ákvörðunin tekin á löglegan hátt? Var málið rætt í utanríkismálanefnd og á alþingi?. Þetta þarf að rannsaka. Og valdhafar Íslands geta ekki skotið sér á bak við önnur ríki í þessu máli. Þeir bera sjálfir ábyrgð á þeirri ákvörðun, sem tekin var hér. Þeir þurfa að gera grein fyrir þeim upplýsingum,sem þeir höfðu undir höndum.Krafa Íslendinga er: Fram fari einnig hér á landi óháð rannsókn á þessu máli.
Björgvin Guðmundsson |