Með því að Samfylkingin er komin í ríkisstjórn og hefur m.a. með velferðarmálin að gera verður að ætla að kjör aldraðra verði bætt myndarlega.Kjaramál eldri borgara eru í miklum ólestri og þar þarf virkilega að taka til hendinni.
Lífeyrir verður að hækka
Hvað er helst að í kjaramálum aldraðra? Hér skal það rakið:
Lífeyrir aldraðra er alltof lágur.Hjá einhleypingum,sem ekki eru í lífeyrissjóði, er lífeyrir þeirra nú 126 þúsund krónur á mánuði fyrir skatta en 113 þúsund eftir skatta.Þetta dugar hvergi nærri fyrir framfærslukostnaði.Samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Íslands eru útgjöld einstaklinga án skatta nú 210 þúsund krónur á mánuði.Það vantar því tæplega 100 þúsund króur á mánuði upp á að lífeyrir almannatrygginga dugi fyrir framfærslukostnaði einstaklinga.Þeir eldri borgarar,sem hafa 50 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrirsjóði eru lítið betur settir vegna skatta og skerðinga á tryggingabótum.
Þeim,sem eru í lífeyrissjóði, er refsað!
Þegar lífeyrissjóðirir voru stofnaðir var reiknað með því að lífeyrir úr þeim mundu verða hrein viðbót á efri árum við lífeyrinn frá almannatryggingum.Aldrei var inn í myndinni,að lífeyrir frá almannatryggingum yrði skertur vegna lífeyris úr lífeyrirsjóði eins og gert er í dag. Þessa skerðingu þarf að afnema nú þegar.Skerðing lífeyris frá almannatryggingum vegna tekna maka er brot á stjórnarskránni að mínu mati.Einstaklingarnir eru sjálfstæðir og eiga að njóta jafnréttis.Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í hinum fræga öryrkadómi að óheimilt væri að skerða tryggingabætur vegna tekna maka.
Refsað fyrir að vinna
Eldri borgurum hefur verið refsað fyrir að vinna eftir að þeir hafa komist á eftirlaunaaldur.Stjórnvöld hafa sýnt einna mestan skilning á því að leiðrétta þetta atriði enda hafa þau gert sér það ljóst, aðmikið kæmi aftur til baka í ríkiskassann í formi skatta af vinnutekjum eldri borgara.En ríkisstjórnin hefur enn ekki viljað stíga skefið til fulls í átt til leiðréttingar á þessu ákvæði.Hún talar nú um að atvinnutekjur 70 ára og eldri skerði ekki lífeyri almannatrygginga.En ellilífeyrisaldur er 67 ár en ekki 70 ár.Þess vegna á að miða við 67 ára og atvinnutekjur þeirra,sem náð hafa þeim aldri eiga ekki að skerða lífeyri almannatrygginga.
Skattur af tekjum úr lífeyrissjóði lækki í 10%
Skattur af tekjum úr lífeyrissjóði er sá sami og af atvinnutekjum eða nálægt 36%. Það er óeðlilegt. Nær væri að skatturinn væri 10 % eins og skattur af fjármagni.
Björgvin Guðmundsson |