Prófessorar við Háskóla Íslands eru ekki á eitt sáttir um misskiptinguna og ójöfnuðinn í íslensku þjóðfélagi .Þeir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason hafa sýnt fram á það, að ójöfnuður hafi aukist mikið hér á landi síðustu 12-13 árin. Þeir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Ragnar Árnason komast að annarri niðurstöðu. Þeir segja,að ójöfnuður hafi ekki aukist.
VELFERÐARKERFIÐ HEFUR DREGIST AFTUR ÚR
Stefán Ólafsson prófessor hefur rannsakað þróun velferðarkerfisins á Íslandi. Niðurstaða þeirra rannsókna er sú, að velferðarkerfið á Íslandi hafi dregist aftur úr velferðarkerfinu á hinum Norðurlöndunum. Ísland býður ekki öldruðum,sjúkum og atvinnulausum jafn góð kjör og hin Norðurlöndin gera. Tekjutengingar og skerðingar á lífeyri vegna atvinnutekna eru hér mun meiri en þar. Í Svíþjóð eru engar skerðingar á lífeyri vegna atvinnutekna. Ísland hefur fjarlægst velferðarkerfi Norðurlanda og nálgast óðfluga kerfið í Bandaríkjunum en þar er það einna verst og misskipting mest. Stefán Ólafsson hefur einnig sýnt fram á það ,að tekjuskattar hafa þyngst á þeim lægst launuðu undanfarin ár en minnkað á þeim hæst launuðu. Þetta er einkum vegna þess,að skattleysismörkin hafa ekki fylgt launavísitölu. Ef svo hefði verið frá 1988 væru skattleysismörkin í dag 136 þúsund krónur á mánuði en þau eru aðeins 90 þúsund.Skattar á þeim hæst launuðu hafa meðvitað verið lækkaðir.
ÓJÖFNUÐUR EINNA MESTUR HÉR
Þorvaldur Gylfason prófessor bað ríkisskattstjóra á síðasta ári að reikna út Gini stuðul fyrir Ísland frá 1993. Gini stuðull er mælikvarði á miskiptingu tekna milli manna og er reiknaður úr gögnum um neysluútgjöld heimila eða tekjur, ýmist samkvæmt neyslukönnunum eða skattframtölum og tekur í minnsta lagi gildið 0, ef allir hafa sömu tekjur eða neyslu (fullkominn jöfnuður) og í mesta lagi 100, ef allar tekjur og neysla falla einum manni í skaut (fullkominn ójöfnuður).Niðurstaða ríkisskattstjóra var sú, að ójöfnuður hefur aukist mikið hér á landi á tímabilinu 1993-2005.Gini stuðullin hefur hækkað um 1 stig á hverju ári frá 1993 eða um 12 stig í 36 stig árið 2005. Í Danmörku er Gini stuðullinn aðeins 25 stig. Niðurstaða ríkissskattstjóra í þessu efni liggur fyrir. Það þýðir ekki að deila við dómarann.
MARKMIÐ SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS HAFA NÁÐST
Það er engin tilviljun, að ójöfnuður hér á landi hefur aukist á því tímabili sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd.Áður en Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda var jöfnuður hér svipaður og á hinum Norðurlöndunum. Það hefur verið markmið Sjálfstæðisflokksins að bæta hag atvinnurekenda og fjármagnseigenda. Þessu markmiði hefur Sjálfstæðisflokkurinn náð.Hitt er undarlegra, að Framsóknarflokkurinn skuli hafa stutt þessa stefnu misskiptingar og ójafnaðar. Framsókn hefur í því efni gengið gegn upphaflegri stefnu og þess vegna hefur fylgið hrapað hjá flokknum.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 10.febrúar 2007 |