Hvers vegna hækkar ríkisstjórnin ekki lífeyri aldraðra frá almannatryggingum eins og lofað var fyrir kosningar? Hvers vegna segir ríkisstjórnin, að hún sé að bæta kjör aldraðra, þegar hún er eingöngu að draga úr tekjutengingum,sem aðeins koma hluta eldri borgara til góða? Ellilífeyrisaldur er 67 ára. Þegar fólk hefur náð þeim aldri getur það farið á eftirlaun. Það hefur þá lokið starfsævi sinni. Þeir eru tiltölulega fáir,sem vilja halda áfram að vinna.Aðgerðir ríkisstjórnar til þess að bæta kjör aldraðra eiga að sjálfsögðu að miðast við þá, sem eru orðnir ellilífeyrisþegar og hættir störfum. Aðgerðirnar eiga ekki eingöngu eða fyrst og fremst að miðast við þá sem eru heilsuhraustir og kjósa að vinna áfram. Það er mikill minnihluti aldraðra Og það á ekki að blekkja eldri borgara og tala eins og það sé verið að bæta kjör allra eldri borgara, þegar aðeins er verið að bæta kjör þeirra, sem eru á vinnumarkaðnum.
Lífeyrir ekki hækkaður um eina krónu
Það eru nú 8 mánuðir frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum en samt hefur lífeyrir aldraðra, sem hættir eru að vinna, enn ekki hækkað um eina krónu fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar.
Félag eldri borgara í Reykjavík hefur samþykkt að lífeyrir eldri borgara verði miðaður við neysluútgjöld samkvæmt könnun Hagstofu Íslands.
Hagstofan birti á slíka könnun 18.desember 2007. Þá voru neysluútgjöld einhleypinga komin í 226 þúsund krónur á mánuði, að viðbættri vísitöluhækkun frá því könnunin var gerð.Skattar eru ekki meðtaldir í könnun Hagstofunnar .60+ hjá Samfylkigunni hefur gert svipaða ályktun og Félag eldri borgara í Reykjavík, þ.e. að miða eigi lífeyri aldraðra við neyslukönnun Hagstofunnar.
Það vantar 110 þúsund á mánuði
Lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum er í dag 130 þúsund krónur á mánuði hjá einhleypingum, sem ekki eru í lífeyrissjóði, þ.e. fyrir skatta eða 118 þúsund eftir skatta.Það vantar því 108 þúsund á mánuði upp á að lífeyririnn dugi fyrir neysluútgjöldum.Tilkynning ríkisstjórnarinnar um að hún ætli að láta þá, sem ekki eru í lífeyrissjóði, fá 25 þúsund á mánuði úr lífeyrissjóði frá 1.júlí n.k. hrekkur skammt til þess að brúa þetta bil.Mjög lítill hópur fær þessa upphæð og hún verður skattlögð og veldur skerðingu tryggingabóta eins og allar tekjur úr lífeyrissjóði. Hjá einhleypingi verða ekki nema rúmlega 8 þúsund krónur eftir á mánuði þegar búið er að skerða þessa upphæð með sköttum og skerðingu bóta.Þetta útspil ríkisstjórnarinnar er því aðeins til málamynda.
Kosningaloforðin voru skýr
Samfylkingin lofaði því fyrir síðustu kosningar að hún ætlaði að leiðrétta lífeyri aldraðra og miða hann við neysluútgjöld samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar. Sú leiðrétting yrði gerð í áföngum.Fyrsti áfangi þessarar leiðréttingar hefur ekki tekið gildi enn.Það er ekki nóg að draga úr tekjutengingum til þess að efna þetta loforð.Kjarabætur til aldraðra verða að ná til allra ellilífeyrisþega en ekki eingöngu þeirra,sem eru á vinnumarkaði.Það á ekki að mismuna eldri borgurum.Sjálfstæðisflokkurinn hét eldri borgurum einnig kjarabótum fyrir síðustu kosningar.Ég tel því að ríkisstjórnin sé skuldbundin til þess að bæta kjör eldri borgara myndarlega með hækkun lífeyris allra en ekki hluta eldri borgara.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttblaðinu 24.jan. 2008 |