Efst á baugi í stjórnmálunum um þessar mundir er eftirfarandi:
Skattamál.Allt útlit er fyrir,að ríkisstjórnin muni svíkja fyrirheit sitt um 20 milljarða króna skattalækkun. Fjárlagafrumvarpið fyrir 2004 var lagt fram á tilskyldum tíma en þar var ekki að finna neinar skattalækkanir næsta ár. Þvert á móti er gert ráð fyrir 4 milljarða hækkun skatta og gjalda á árinu 2004.Því var lofað,að skattalækkanir yrðu lögfestar á þinginu sl. haust en ekki hefur verið að staðið við það.Þetta kosningaloforð verður svikið.Verkalýðshreyfingin vísar því algerlega á bug, að skattalækkanir verði einhver skiptimynt í væntanlegum kjarasamningum.
Línuívilnun. Fyrir alþingiskosningarnar sl. vor lofaði ríkisstjórnin því,að tekin yrði upp línuívilnun sl.haust ( aukakvóti fyrir dagróðrarbáta á línu) til þess að milda slæm áhrif kvótakerfisins á landsbyggðinni. Átti þessi ráðstöfun að vera til hagsbóta fyrir hinar dreifðu sjávarbyggðir út um allt land en þær hafa misst mikið af kvótum sínum.Sjávarútvegsráðherra,Árni Mathiesen, tilkynnti,að ekkert yrði af línuívilnun í ár.Fyrir þrýsting frá Kristni Gunnarssyni lagði hann fram frumvarp í skötulíki um málið en óvíst er að það nái fram að ganga.M.a. gerir frv. hans ráð fyrir skerðingu á byggðakvóta en það er brot á stjórnarsáttmálanum.
Héðinsfjarðargöng.Því var lofað fyrir kosningar,að göng yrðu gerð milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar,Héðinsfjarðargöng.Því til staðfestingar var gerð þessara ganga boðin út. Er útboð höfðu verið opnuð tilkynnti samgönguráðherra,Sturla Böðvarsson,að vegna hættu á þenslu í efnahagskerfinu yrði hætt við göngin. Mikil mótmæli urðu vegna þessa og var ríkisstjórninni réttilega brigslað um svik í málinu. Lét ríkisstjórnin þá undan og kvaðst mundu láta gera göngin síðar en lofað hafði verið fyrir kosningar.Ef staðið hefði verið við kosningaloforðið hefðu göngin orðið tilbúin 2006.En nú geta þau í fyrsta lagi orðið tilbúin 2009.Eftirmál geta þó orðið vegna þessara svika ríkisstjórnarinnar,þar eð Íslenskir aðalverktakar,sem áttu lægsta tilboð í gerð Héðinsfjarðarganga hafa hótað málsókn vegna þess að öllum tilboðum var hafnað.
Öryrkjadómur.Hinn 16.oktober sl. hvað Hæstiréttur upp dóm í málefnum öryrkja. Kom þá í ljós,að ríkisstjórnin hafði brotið stjórnarskrána með því ákvæði laganna frá 2001 að skerða bætur öryrkja árin 1999 og 2000 vegna tekna maka. Er þetta í annað sinn sem Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu,að ríkisstjórnin hafi brotið stjórnarskrána við ákvörðun kjara öryrkja. Hið fyrra sinnið var þegar Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í málefnum öryrkja í desember árið 2000. Þá sagði Hæstiréttur,að ríkisstjórnin hefði brotið mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæðið um rétt öryrkja til lágmarksframfærslu .Ríkisstjórninni hefur verið svo mikið í mun að níðast á kjörum öryrkja,að hún hefur brotið stjórnarskrána tvisvar við þá iðju sína.Þegar svona er komið á ríkisstjórnin að segja af sér.
Húsnæðismálin.Stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir þingkosningarnar var að hækka ætti húsnæðislán í 90%. Mun Framsókn hafa fengið mörg atkvæði út á það loforð.Þetta loforð er mjög umdeilt innan stjórnarflokkanna. Hagfræðingar telja,að hækkun húsnæðislána í 90% mundi valda sprengingu á verði íbúða til hækkunar.Seðlabankinn hefur einnig gert athugasemdir við málið af sömu ástæðu.. Félagsmálaráðherra greip til þess gamalkunna ráðs að setja málið í nefnd og þar er það. Er alls óvíst á þessari stundu,að staðið verði að fullu við þetta kosningaloforð. Er líklegast,að miklar takmarkanir verði settar á framkvæmd þess og hugsanlega verður framkvæmdinni frestað eitthvað. Hið eina sem er áþreifanlegt í húsnæðismálunum er það,að ákveðið hefur verið að lækka vaxtabætur.Telja sumir,að sú ráðstöfun sé brot á stjórnarskránni. Þessi ráðstöfun mun bitna þungt á ungu fólki. Eru þetta efndirnar á kosningaloforðunum í húsnæðismálunum? Í stað hækkunar húsnæðislána í 90% á að lækka vaxtabætur.
SAMKOMULAGIÐ VIÐ ÖRYRKJA SVIKIÐ.Ríkisstjórnin lofaði samkvæmt sérstöku samkomulagi,sem gert var við Öryrkjabandalag Íslands í mars sl.að bæta verulega kjör öryrkja 1.janúar n.k. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að efna ekki þetta samkomulag að fullu um áramótin,heldur aðeins að 2/3 hlutum. Á 1/3 hluti samkomulagsins að koma til framkvæmda eftir 1 ár. Öryrkjabandalag Íslands telur þetta hrein svik við samkomulagið. Ríkisstjórnin hefur því svikið þetta kosningaloforð einnig. Íhugar Öryrkjabandalagið nú málsókn vegna þessara svika.
Afstaða Íslands til innrásarinnar í Írak.Mikið var rætt um það í haust í fjölmiðlum og á alþingi,að ríkisstjórnin hafi ekki staðið rétt að málum við ákvörðun um að láta Ísland styðja innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak. Málið var hvorki lagt fyrir utanríkismálanefnd né alþingi. Lögum samkvæmt á að leggja öll mikilvæg utanríkismál fyrir utanríkismálanefnd. Það var ekki gert og því hefur ríkisstjórnin brotið lög í þessu mikilvæga máli.Sennilega er hér um að ræða mikilvægasta utanríkismál,sem upp hefur komið eftir síðari heimsstyrjöldina. Hér var um það að tefla að styðja árás á annað ríki. Nauðsynlegt er,að alþingi taki þetta mál fyrir.Eðlilegast væri að alþingi skipaði sérstaka rannsóknarnefnd til þess að rannsaka þetta mál. Rannsaka þarf hvaða gögn utanríkisráðherra hafði í höndunum um gereyðingarvopn Íraka,þegar ákvörðun var tekin og rannsaka þarf hvort ákvörðun var tekin á réttan hátt eða ekki.Ef niðurstaða rannsóknar er sú,að ekki hafi verið staðið rétt að ákvörðun um að styðja árásarstríð, á ríkisstjórnin að segja af sér.
Björgvin Guðmundsson
viðskiptafræðingur
Birt í Mbl. 15.desember 2003 |