Nýlega ritaði ég blaðagrein um málefni eldri borgara og skýrði frá því,að Ísland væri mörgum áratugum á eftir hinum Norðurlöndunum að því er varðaði aðbúnað og kjör eldri borgara.Vitnaði ég í því sambandi í athuganir,sem samtök eldri borgara hafa gert á málinu.Fyrir skömmu kom út skýrsla frá Stefáni Ólafssyni prófessor um stöðu öryrkja hér á landi í alþjóðlegu samhengi.Sú skýrsla leiddi í ljós,að öryrkjar hér á landi standa langt að baki öryrkjum á hinum Norðurlöndunum og í flestum löndum OECD að því er varðar greiðslu lífeyris og framfærslueyris til öryrkja. Á sviði þessara mála er Ísland á bekk með þeim löndum Evópu sem eru á botninum að því er varðar kjör öryrkja,þ.e. með Tyrklandi og Miðjarðarhafslöndum!
Alþýðuflokkurinn kom tryggingunum á
Alþýðuflokkurinn kom alþýðutryggingum á 1936 og almannatryggingum 1946.Eftir lögfestingu almannatrygginganna,sem fólu í sér miklar umbætur á íslenska tryggingakerfinu,var Ísland í fremstu röð á þessu sviði í heiminum. En svo er ekki í dag. Ísland getur ekki eins og áður státað af því að vera með eitt besta kerfi almannatrygginga í heiminum. Það er búið að stórskemma almannatryggingarnar á Íslandi í tíð núverandi ríkisstjórnar og í valdatíð þeirra stjórnarflokka,sem standa að ríkisstjórninni.Alls konar tekjutengingar skerða bætur mikið.En mestu veldur sú ráðstöfun stjórnvalda 1995,að skera á sjálfvirk tengsl milli lífeyris aldraðra og öryrkja og lágmarkslauna launþega á almennum vinnumarkaði. Fram að þeim tíma hækkaði lífeyrir umræddra hópa sjálfvirkt,þegar lágmarkslaun hækkuðu.Skorið var á þessi tengsl. En um leið lýsti þáverandi forsætisráðherra því yfir,að þessi breyting mundi ekki skerða kjör aldraðra og öryrkja.Trygging aldraðra og öryrkja yrði tvöföld:Miðað yrði bæði við hækkun launa og verðlags,þegar lífeyrir umræddra hópa yrði ákveðinn. Þetta var svikið. Eins og samtök aldraðra hafa bent á hefur lífeyrir aldraðra (og öryrkja) dregist mikið aftur úr í launaþróuninni sl. 11 ár.
40 milljarðar hafðir af öldruðum
Ég hefi bent á það í blaðagreinum,að ef sjálfvirku tengslin hefðu haldist eða ef stjórnvöld hefðu staðið við fyrirheitið um að skerða ekki kjör aldraðra í kjölfar breytingarinnar 1995 þá hefðu aldraðir fengið 40 milljörðum kr. meira í lífeyri sl. 11 ár en þeir hafa fengið. Stjórnvöld hafa því haft af öldruðum 40 milljarða sl. 11 ár. Ríkisstjórnin skuldar því öldruðum mikla fjármuni. Aldraðir hefðu átt að fá meginhlutann af Símapeningunum en .þeir fengu ekki eina krónu. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bæta öldruðum þennan skaða? Í því efni duga engir smáaurar. Það dugar ekki að sletta í aldraða nokkrum krónum eins og gert var með samkomulaginu við þá í nóvember 2002.Það verður að rétta hag aldraðra myndarlega.Landssamband eldri borgara vill,að lífeyrir aldraðra frá Tryggingastofnun verði hækkaður um 17 þús kr. á mánuði. Það er algert lágmark. Í raun þyrfti að hækka hann mikið meira vegna mikillar skerðingar liðins tíma.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 21.des. 2005 |