Rykið dustað af gamalli kenningu
Nú hefur rykið verið dustað af glundroðakenningunni,þar eð það hefur tekið nokkuð langan tíma að semja um skipan frambjóðenda á R-listann.Morgunblaðið segir,að “glundroðinn” innan R-listans minni á glundroðann 1978-1982,þegar “vinstri flokkarnir” fóru með völd í Reykjavík. Ekki er talað um glundroða á stjórnartíma R-listans enda enginn glundroði verið heldur styrk stjórn. Þess vegna hentar ekki að tala um tímabil R-listans heldur farið allt aftur til 1978 í samanburðinum og gamall áróður dreginn fram.Treyst er á,að menn muni ekki það tímabil.
Gott samstarf 1978-1982
En hver er sannleikurinn um tímabilið 1978-1982 í stjórn borgarinnar: Hann er þessi.Alþýðuflokkur,Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag mynduðu meirihluta eftir að Sjálfstæðisflokkurinn missti völdin 1978.Að tillögu Alþýðuflokksins var ákveðið að stjórn borgarinnar byggðist á jafnræði milli flokkanna og til þess að innsigla það hafði hver flokkur 1 fulltrúa í borgarráði,þar sem mest völd lágu ( og liggja enn í dag). Allir flokkar höfðu jafnmarga fulltrúa í nefndum. Formennsku nefnda var skipt jafnt á milli flokkanna. Formennska í borgarráði skiptist milli flokkanna.( Roteraði). Ákveðið var að ráða ópólitískan embættismann sem borgarstjóra eins og gert hafði verið í mörgum sveitarfélögum úti á land með góðum árangri.Þetta samstarf og þetta kerfi gekk mjög vel. Enginn ágreiningur var um borgarmálefni allt kjörtímabilið. Eina ágreiningsefnið,sem kom upp var um mál,sem ekki varðaði stjórn borgarinnar,heldur snerti Landsvirkjun og Laxárvirkjun. Samstarf oddvita meirihlutaflokkanna gekk mjög vel.Ekkert vandamál kom upp í þeirra samstarfi.Áróður um að oddvitarnir hafi verið eins konar borgarstjórar er tilbúningur Sjálfstæðismanna. Það mætti alveg eins kalla borgarráðsmenn hverju sinni því nafni,bæði nú og í tíð Sjálfstæðisflokksins.
Eins og bæjarstjórar úti á landi
Borgarstjórinn hafði alveg sömu völd og bæjarstjórar hafa úti á landi,þ.e. embættismenn ,sem ráðnir hafa verið sem framkvæmdastjórar sveitarfélaga.( sbr. einnig Þórólfur Árnason,sem ráðinn var framkvæmdastjóri borgarinnar).Borgarráð annaðist ásamt borgarstjórn stefnumörkun og tók ákvörðun um stærstu mál en borgarstjóri hafði frjálsar hendur um framkvæmd og útfærslu mála.Allt tal Sjálfstæðismanna um annað er áróður einn sem nú hentar að draga fram á ný þar eð dregist hefur að koma R-listanum saman.
Ekki allt í sómanum hjá íhaldinu
Vissulega þykir stuðningsmönnum R-listans það slæmt að dragast skuli að koma listanum saman.En með því að um kosningabandalag þriggja flokka er að ræða þarf það ekki að vera óeðlilegt.Mikil átök eru innan Sjálfstæðisflokksins enda þótt þar sé um einn flokk að ræða. Deilt er um hver leiða eigi listann og eru komnir fram á sjónarsviðið sjálfskipaðir prinsar sem vilja velta Vilhjálmi Þ.Vilhjálmssyni úr sessi. Má þar t.d. nefna Gísla Martein,sem lét gera skoðanakönnun til þess að sýna,að hann hefði meira fylgi en Vilhjálmur. Menn minnast átakanna innan Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar,þegar Björn Bjarnason og Inga Jóna Þórðardóttir deildu um leiðtogasætið. Þá velti Björn Ingu Jónu úr sessi og lét flokksforustuna þvingja hana til þess að segja af sér. Ekki verður eins auðvelt að ryðja Vilhjálmi burt og má því búast við mun harðari átökum nú innan Sjálfstæðisflokksins en áður. Spá mín er sú,að glundroðinn verði mun meiri innan Sjálfstæðisflokksins en innan R-listans.
Björgvin Guðmundsson
fyrrv. borgarfulltrúi