Sjálfstæðisflokkurinn herðir nú baráttuna fyrir setningu laga gegn "hringamyndun”.Á þingi Verslunarráðs 11.febrúar 2004 gerði forsætisráðherra þetta mál að umtalsefni Sagði hann,að í ljósi þess,að nokkrar viðskiptablokkir hefðu vaxið gríðarlega á undanförnum árum með fulltingi viðskiptabankanna yrði ekki komist hjá því að spyrja, hvort sú mikla samþjöppun gæti tilefni til þess að löggjafinn lagfærði leikreglurnar. Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins,Einar K.Guðfinnsson, tók undir þetta í viðtali á pressukvöldi sjónvarpsins og hið sama gerði Illugi Gunnarsson,aðstoðarmaður forsætisráðherra í Kastljósi sjónvarpsins.Í viðtali við sjónvarpið kom fram hjá forsætisráðherra, að hann hefði fyrst og fremst áhyggjur af veldi Baugsmanna og yfirráðum þeirra yfir ákveðnum fjölmiðlum.
GAGNRÝNDI VIÐSKIPTABANKANA
Í ræðu sinni á viðskiptaþingi sagði forsætisráðherra,að ekki væri heppilegt,að viðskiptabankar væru í lykilhlutverki í rekstri fyrirtækja. Það yki hættuna af hagsmunaárekstrum.Bað ráðherrann bankana að íhuga sinn gang vel í þessum efnum. Einnig varaði ráðherra bankana við að taka of mikil erlend skammtímalán. Björgólfur Guðmundsson formaður bankaráðs Landsbankans flutti einnig ræðu á viðskiptaþingi. Hann líkti viðskiptalífinu við knattspyrnuleik og sagði,að ekki mætti breyta leikreglum í miðjum leik. Var ljóst,að hann var að senda forsætisráðherra skilaboð þess efnis,að ekki gengi að breyta leikreglum viðskiptalífsins í miðjum klíðum.
NÝR TÓNN SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS
Hatrömm barátta Sjálfstæðisflokksins nú fyrir nýjum lögum um “ hringamyndanir” markar kaflaskil hjá Sjálfstæðisflokknum. Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn látið sem hann vildi sem mest frelsi í viðskiptalífinu.Allt átti að vera frjálst. Vinstri mönnum hefur þótt nóg um. En nú snýr Sjálfstæðisflokkurinn við blaðinu og vill innleiða ný höft í viðskiptalífinu. Flokkurinn boðar ný lög um samkeppnishömlur eða hringamyndanir eins og flokkurinn kallar það og vill koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í viðskiptalífinu. En erfitt er að snúa klukkunni til baka í þessum efnum. Ísland er aðili að EES og samkvæmt EES samningnum á viðskiptalífið að vera frjálst. Við getum ekki haft meiri hömlur á viðskiptalífinu hér en EES samningurinn segir til um. Þetta gerir forseti Íslands sér ljóst. Hann sagði í áramótaræðu sinni,að hætt væri við að íslensk fyrirtæki flyttu starfsemi sína til útlanda,ef þrengt yrði um of að starfsemi þeirra hér. Gamli Alþýðubandlagsmaðurinn er sem sagt orðinn frjálslyndari í þessum efnum en Davíð Oddsson. –Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar kominn í gamla haftafarið en flokkurinn barðist lengi af hörku gegn því að útflutningshöft væru afnumin.
HVAÐ VELDUR?
Hvers vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn skyndilega snúið við blaðinu í þessum efnum? Davíð Oddson svaraði því sjálfur í viðtali við Helga H. Jónsson í sjónvarpinu. Ástæðan er Baugsveldið.Sjálfstæðisflokkurinn hafði engar áhyggjur meðan “ Kolkrabbinn” réði nær öllu í viðskiptalífinu.Það virðist ekki sama hverjir eflast í viðskiptalífinu. Það virðist ekki sama hverjir eiga viðskiptasamsteypur. Að sjálfsögðu þarf að vera öflugt eftirlit með fyrirtækjasamtökum og það þarf að efla samkeppnisstofnun og ef nauðsynlegt þykir þarf að herða samkeppnislögin. En stjórnvöld mega ekki vera hlutdræg í afstöðu sinni til fyrirtækja. Þau mega ekki ofsækja viss öflug fyrirtæki af þeirri ástæðu einni,að stjórnendur þeirra eru ekki stjórnvöldum að skapi.
Björgvin Guðmundsson
" Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar kominn í gamla haftafarið en flokkurinn barðist lengi af hörku gegn því,að útflutningshöft væru afnumin."
|