Það á að innkalla allar veiðiheimildir strax á árinu 2009.Síðan á að úthluta þeim aftur eftir nýjum reglum,þannig að allir sitji við sama borð.Þar koma ýmsar aðferðir til greina. Það mætti bjóða aflaheimildirnar upp og leyfa öllum að bjóða í þær.Einnig mætti hugsa sér að úthluta eftir ákveðnum reglum gegn gjaldi og gæta þess,að veiðiheimildir dreifðust út um allt land,þannig að sjávarbyggðir úti á landi yrðu ekki afskiptar og allir hefðu möguleika á að fá veiðiheimildir.Það kerfi,sem byggðist á því að nokkrir útvaldir fengju veiðiheimildirnar, gengur ekki lengur. Þetta kerfi felur í sér svo mikið misrétti,svo mikil brot á mannréttindum,að Mannréttindanefnd Sameinuði þjóðanna hefur úrskurðað, að það feli í sér mannréttindabrot og því verði að breyta.En ríkisstjórnin hefur ekkert gert til þess að breyta kerfinu enn sem komið er. Hún hefur aðeins sent bréf til Mannréttindanefndar Sþ. og sagt,að hún muni skoða breytingar síðar.Ætlun rikisstjórnarinnar mun vera að skipa nefnd til þess að endurskoða kvótakerfið og koma með einhverjar tillögur um breytingar. En mér vitanlega hefur þessi nefnd enn ekki verið skipuð.Seinagangur ríkisstjórnarinnar í þessu máli er slíkur, að hann leiðir í ljós,að áhugi á málinu er enginn..Þegar Ísland er sakað um mannréttindabrot af Sameinuðu þjóðunum tekur Ísland ekki meira mark á því en svo að málinu er nánast stungið undir stól. Svarbréfið,sem Ísland sendi Mannréttindanefnd Sþ. var svo loðið að það sagði nánast ekki neitt. Og það fylgdi enginn hugur máli eins og sést best á framkvæmd málsins.Sjávarútvegsráðherra telur greinilega að ekkert liggi á. Það megi athuga þetta einhvern tímann síðar. Þetta sýnir algert skilningsleysi á mannréttindabrotum.. Það er ekki unnt að fresta því að afnema mannréttindabrot. Og það er ekki unnt að veita neinn afslátt á mannréttindum. Ísland hefur gagnrýnt mannréttindabrot erlendis harðlega og barið sér á brjóst.En þegar um mannréttindabrot hjá okkur sjálfum er að ræða gegnir öðru máli.Þá er ekkert gert í málinu.Mannréttindabrotin halda áfram.
Þarf að bæta útgerðarmönnum innköllun veiðiheimilda?
Mörgum finnst það róttækt að ríkið innkalli allar veiðiheimildir og spyrja hvað á að gera fyriir útgerðina, ef það verður gert? En ríkið,þjóðin, á allar veiðiheimildirnar. Fiskimiðin,fiskurinn í sjónum, er sameign íslensku þjóðarinnar samkvæmt lögum. Útgerðarmenn hafa haft veiðiheimildirnar að láni. En þeir hafa farið með þær eins og þeir ættu þær. Þeir hafa selt þær öðrum og grætt marga milljarða á því braski.Þeir hafa hætt veiðum eftir að hafa selt veiðiheimildirnar! Þeir hafa meira að segja veðsett veiðiheimildirnar. Eru skuldir útgerðarinnar nú um 600 milljarðar í ríkisbönkunum. Ríkið á þessar skuldir.Það er með ólíkindunm,að útgerðin skuli bæði hafa selt veiðiheimildir og veðsett þær. Þetta er svipað og maður hefði íbúð á leigu.Honum væri leyft að framleigja hana en mundi selja hana! Og aðrir,sem hefðu íbúðir á leigu mundu veðsetja þær..Þetta kerfi er komið út í hreinar ógöngur og það verður að umbylta því strax eða afnema með öllu.Samfylkingin lagði fyrir kosningar 2003 fram tillögur um fyrningarleið í kvótakerfinu.Samkvæmt .þeim tillögum átti að fyrna veiðiheimildir útgerðarmanna á ákveðnu árabili. Tillögurnar voru hugsaðar þannig,að þær mundu milda það fyrir útgerðarmenn að veiðiheimildirnar væru teknar af þeim.Því átti það .að gerast smátt og smátt.Tillögurnar mættu mikilli andstöðu útgerðarmanna. Spurning er hvort andstaðan hefði verið nokkuð meiri þó lagt hefði verið til,að veiðiheimildirnar yrðu innkallaðar í einu lagi.Það er óvíst.
Þjóðin er á krossgötum
Nú eru þáttaskil í efnahags-og atvinnumálum þjóðarinnar.Stærstu bankar þjóðarinnar fóru í þrot vegna óhóflegrar skuldasöfnunar þeirra erlendis.Fjármálakerfi þjóðarinnar er hrunið.Þjóðin hefur orðið að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF)um aðstoð við að endurreisa gjaldeyris-og fjármálakerfi þjóðarinnar.Þjóðin sótti um lán til IMF til þess að unn væri að koma á frjálsum gjaldeyrisviðskiptum með krónuna..Það hefur einnig þurft að leita eftir láni til vinveittra ríkja. Hætt er við að íslenska ríkið verði að greiða hluta af ábyrgðarskuldbindingum bankanna vegna sparifjárreikninga,sem íslenskir bankar stofnuðu til erlendis.Ef svo fer verður
islenska þjóðin að greiða háar fjárhæðir í afborganir og vexti í framtíðinni.Undir þessum kringumstæðum getur þjóðin ekki lengur látið einkaaðila valsa með veiðiheimildir landsmanna og braska með þær. Það verður að innkalla veiðiheimildirnar strax og láta greiða eðlilegt gjald fyrir þær.Þessi auðlind þjóðarinnar getur sannarlega hjálpað þjóðinni í þeim erfiðleikum,sem hún á nú við að etja.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Mbl. 24.feb. 2009
|