Fyrir skömmu birti Hagstofan niðurstöður neyslukönnunar,er gerð var árin 2001-2003. Könnuð voru neysluútgjöld einstaklinga og heimila í landinu.Neysluútgjöld einstaklinga reyndust rúmar 2 millj. kr. á ári til jafnaðar eða nákvæmlega 2.005.241 kr.Þetta gera 167 þús. kr. á mánuði.Húsnæðiskostnaður er inni í þessari tölu en mjög lágt áætlaður,aðeins 43 þús kr. á mánuði.Flestir þurfa að greiða mikið meira í húsnæðiskostnað á mánuði.Engin opinber gjöld eru inni í tölunni,hvorki tekjuskattar til ríkisins,útsvör,eignarskattar,bifreiðaskattar né fasteignagjöld. Til þess að standa undir þessum neysluútgjöldum og geta greitt öll opinber gjöld þarf því hver einstaklingur talsvert yfir 200 þús. kr. í tekjur á mánuði til jafnaðar.
Ráðgjafarstofa heimilanna birtir neysluviðmiðun,sem er talvert lægri en niðurstaða neyslukönnunar Hagstofunnar.Ástæðan er sú,að það vantar ýmsa veigamikla liði í neysluviðmiðun ráðgjafarstofunnar. Td. Vantar húsnæði,bifreiðakostnað,síma,áskriftargjöld og tryggingar. Einnig vantar dagheimilagjöld.
Hver eru neysluútgjöld aldraðra?
Hagstofan kannar ekki sérstaklega neysluútgjöld ellilífeyrisþega eða öryrkja en það eru þeir hópar bótaþega almannatrygginga,sem hafa verst kjör í dag. Til þess að meta framfærslukostnað ellilífeyrisþega verður því að styðjast við könnun Hagstofunnar á neysluútgjöldum almennings.Framfærslukostnaður eldri borgara er ekkert frábrugðinn framfærslukostnaði almennt.Að vísu kann að vera að ellilífeyrisþegar noti minni fjármuni í skemmtanir en þeir,sem yngri eru en þar á móti kemur,að lyfjakostnaður og sjúkrakostnaður eldri borgara er mikið hærri en hjá þeim yngri.Ég tel því full rök fyrir því að leggja könnun Hagstofunnar á neysluútgjöldum almennings til grundvallar,þegar framfærslukostnaður ellilífeyrisþega er metinn.Ég geng því út frá því,að framfærslukostnaður ellilífeyrisþega sé hinn sami og hjá almenningi til jafnaðar.
Ellilífeyrir dugar hvergi nærri til framfærslu
Nú þegar nýjasta neyslukönnun Hagstofunnar liggur fyrir er því ljóst hversu mikið vantar upp á,að ellilífeyrir Tryggingastofnunar dugi til framfærslu aldraðra.Ellilífeyrir einstaklinga ( einhleypinga)frá Tryggingastofnun er í dag um 104 þús. kr. á mánuði fyrir skatta. Hér er átt við grunnlífeyri,tekjutryggingu,tekjutryggingarauka og heimilisuppbót.En heimilisuppbót fá eingöngu þeir sem búa einir og njóta fullrar tekjutryggingar.Ef einstaklingur tekur einhvern inn til sín,t.d. son, móður eða sambýlismann þá fellur heimilisuppbótin niður en hún nemur nú 18 þús. kr. á mánuði. Það munar um minna. Af 104 þús. kr. lífeyri verður einstaklingur að greiða kr. 11 þús. í skatta á mánuði.Eftir standa þá aðeins 93 þús. kr. Ljóst er af þessum tölum,að það vantar marga tugi þúsunda upp á,að ellilíeyrir Tryggingastofnunar dugi til framfærslu aldraðra. Með því að engin opinber útgjöld eru inni í tölu Hagstofunnar um meðaltals neysluútgjöld einstaklinga er ljóst,að kr. 167 þús. á mánuði eru algerar lágmarks tekjur einhleypra ellilífeyrisþega.Það þarf því a.m.k. að hækka ellilífeyri einstaklinga frá Tryggingastofnun í þessa fjárhæð ( samanlagður grunnlífeyrir,tekjutrygging,heimilisuppbót og tekjutryggingarauki).Af slíkri hækkun leiðir að það þarf síðan að leiðrétta
ellilífeyri hjóna og draga úr skerðingu bóta vegna tekna maka.Og að sjálfsögðu þarf að leiðrétta samsvarandi lífeyri þeirra ellilífeyrisþega,sem hafa lífeyiri frá lífeyrissjóðum.Draga þarf úr skerðingu bóta þeirra ellilífeyrisþega,sem hafa lífeyri frá lífeyrissjóðum eða aðrar tekjur.
Er þetta of mikil hækkun?
Mér er ljóst,að mörgum mun finnast það róttæk tillaga að leggja til,að bætur einhleypra ellilífeyrisþega frá Tryggingastofnun hækki í 167 þús. kr. á mánuði eða um 63 þús. kr. á mánuði. En það yrði ekki mjög kostnaðarsamt að framkvæma þá tillögu,þar eð hér er um tiltöluleg fámennan hóp ellilífeyrisþega að ræða.Hins vegar er nokkuð stór hópur, um 10.000 ellilífeyrisþegar,sem heldur fullri tekjutryggingu þrátt fyrir nokkra greiðslu úr lífeyrissjóði.Leiðrétting á lífeyri Tryggingastofnunar mundi gagnast þessum hóp talsvert enda þótt hækkun frá almannatryggingum sé ekki eins mikil og hjá þeim,sem engan lífeyrissjóð hafa. Ellilífeyrisþegi með 48.182 kr.
á mánuði úr lífeyrissjóði hefur í kringum 113 þús kr. alls í lífeyri.Hann heldur fullri tekjutryggingu en missir heimilisuppbót og tekjutryggingarauka við að fá úr lífeyrissjóði.Flestir ellilífeyrisþegar fá sem betur fer einhvern lífeyri úr lífeyrissjóðum.Ef þeir fá meira en 48.182 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði skerðist tekjutrygging þeirra.
Mál þetta snýst m.a. um það hvort ellilífeyrir eigi að duga fyrir framfærslu.Ég tel,að svo eigi að vera.Þess vegna verður ellilífeyrir að hækka upp á þá fjárhæð sem nemur framfærslukostnaði á mánuði.
Björgvin Guðmundsson |