Hve mikill er framfærslukostnaður aldraðra á mánuði?Hagstofan kannar ekki sérstaklega útgjöld eða framfærslukostnað aldraðra. Hins vegar framkvæmir Hagstofan reglulega neyslukannanir,þ.e. athugar hver meðaltalsútgjöld heimila og einstaklinga í landinu eru. Niðurstaða slíkra neyslukannana gefur vissulega vísbendingu um framfærslukostnað aldraðra. Síðasta slík könnun var gerð árin 2000-2002 og var niðurstaða hennar birt í júní sl.Samkvæmt henni eru meðaltalsútgjöld einhleypinga í landinu 161 þús kr. á mánuði. Inni í þeirri tölu er húsnæðiskostnaður en mjög lágt áætlaður eða aðeins 38 þús. Það er að sjálfsögðu mun lægri fjárhæð en leiga fyrir litla íbúð er.En ástand aldraðra í húsnæðismálum er vissulega mjög misjafnt. Sumir eiga skuldlitlar íbúðir en aðrir verða að leigja á almennum markaði og enn aðrir hafa komist í þjónustuibúðir. Ég tel þó,að 38 þús á mánuði sé of lág tala fyrir húsnæðiskostnað. Engin opinber gjöld eru inni í tölunni 16l þús.kr. á mánuði.Tekjuskattar eru ekki inni í þessari tölu og ekki heldur fasteignaskattar eða bifreiðagjöld.Lóðarleiga,vatnsskattur og sorphirðugjald er meðtalið. Nokkra aðra liði vantar inn í þessa tölu svo sem félagsgjöld,vexti o.fl.
Hvað segir þessi tala okkur um framfærslukostnað aldraðra?Þurfa aldraðir eitthvað minna sér til framfærslu en almenningur yfirleitt? Ég held ekki. Að vísu vitum við það,að aldraðir eru oft nægjusamir og veita sér oft minna en aðrir. En ég tel,að þegar lífeyrir aldraðra er ákveðinn eigi að miða við það,að aldraðir þurfi hið sama sér til framfærslu að meðaltali og aðrir í þjóðfélaginu. Aldraðir eiga að geta lifað með reisn.
Í bók sinni "Fátækt á Íslandi í upphafi nýrrar aldar" taldi Harpa Njáls félagsfræðingur,að það vantaði tæplega 40 þús.kr. á mánuði upp á, að bætur aldraðra og annarra frá Tryggingastofnun dygðu til framfærslu.Hennar mat var miðað við verðlag árið 2000.Á þeim tíma námu bætur Tryggingastofnunar til aldraðra einstaklinga 63% af áætluðum lágmarksframfærslukostnaði þeirra en Harpa Njáls áætlaði þá lágmarksframfærslukostnað einstaklinga rúmlega 100 þús kr. á mánuði og tók hún við mat sitt tillit til þess sem félagsmálaráðuneyti taldi,að hver einstaklingur þyrfti nauðsynlega á að halda sér til framfærslu.Harpa segir í bók sinni: "Þar ( hjá félagsmálaráðuneytinu) er skilgreint að allir eigi að geta keypt sér fæði, klæði, hreinlætis- og snyrtivörur, heimilisbúnað, lyf og læknishjálp. Þeir eigi að geta greitt afnotagjald af síma og ríkisútvarpi, hita og rafmagn, húsaleigu eða eðlilegan húsnæðiskostnað og staðið undir kostnaði af rekstri bifreiðar," Í tölum Hörpu Njáls um lágmarksframfærslukostnað er ekki kostnaður vegna ferðalaga, hótel-og veitingakostnaðar, áfengiskaupa,afborgana af bíl eða menntunar svo nokkrir liðir séu nefndir sem vantar.
Með hliðsjón af síðustu neyslukönnun Hagstofunnar, tel ég að það vanti meira upp á en fram kemur í bók Hörpu Njáls.
Ég tel,að það vanti 60-80 þús kr. á mánuði upp á að bæturnar nægi til framfærslu einstaklinga.Er þó ekki í þeim tölum tekið fullt tillit til skattgreiðslna.
Lífeyrir aldraðra einstaklinga frá Tryggingastofnun,með öllum uppbótum,er í dag um 105 þús kr. á mánuði.Er þá miðað við þá,sem ekki njóta lífeyris úr lífeyrissjóðum.Ljóst er,að sú upphæð verður að stórhækka.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 4.oktober 2004
|