Þegar nýsköpunarstjórnin var mynduð árið 1944 af Alþýðuflokknum,Sjálfstæðisflokknum og Sósialistaflokknum setti Alþýðuflokkurinn það skilyrði fyrir þátttöku í stjórninni, að komið yrði á fót fullkomnum almannatryggingum.Ólafur Thors forsætisráðherra stjórnarinnar gekk að þessu skilyrði Alþýðuflokksins. Þegar Ólafur Thors gerði grein fyrir almannatryggingunum sagði hann, að það skyldi komið á fót svo fullkomnu kerfi almannatrygginga, að það næði til allra landsmanna án tillits til stéttar eða efnahags og að Ísland yrði á þessu sviði í fremstu röð nágrannaþjóða.
Gengið gegn markmiði almannatrygginga
Þær ráðstafanir, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, gerði 1.júlí 2009 til skerðingar almannatryggingum, gengu þvert gegn þessu markmiði almannatrygginganna, sem Ólafur Thors lýsti við stofnsetningu trygginganna.Stór hópur aldraðra og öryrkja var þá sviptur grunnlífeyri.Það var þá ákveðið að reikna greiðslur úr lífeyrissjóði með tekjum við útreikning grunnlífeyris.Alls urðu 5210 ellilífeyrisþegar fyrir kjaraskerðingu við þá ráðstöfun.Ekki samrýmdist það markmiðinu um að láta almannatryggingarnar ná til allra án tillits til stéttar eða efnahags.Stór hópur ellilífeyrisþega, sem hafði greitt til almannatrygginga beint og óbeint alla sína starfsævi, var þá strikaður út úr almannatryggingum og hefur ekki fengið krónu þaðan síðan.Ekkert bólar á því, að núverandi velferðarráðherra ætli að leiðrétta þetta misrétti enda þótt Árni Páll Árnason þáverandi félagsmálaráðherra hafi lýst því yfir í júní 2009, að umrædd kjaraskerðing yrði tímabundin vegna ríkjandi efnahagsástands. Þessir tveir ráðherrar ríkisstjórnar Jóhönnu, Árni Páll og Guðbjartur Hannesson hafa ekki þann skilning á almannatryggingum og tilfinningu fyrir þeim, sem Alþýðuflokksmenn hafa.Hvorugur þeirra er kominn úr Alþýðuflokknum. Það skýrir neikvæða afstöðu þeirra til almannatrygginganna.
Fróðlegt verður að sjá hvernig núverandi velferðarráðherra uppfyllir það fyrirheit félagsmálaráðuneytis frá 2009, að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða.Það eru nú 3 ár síðan kjaraskerðing aldraðra og öryrkja var lögleidd og því tímabært að afturkalla hana enda dágóður hagvöxtur á síðasta ári og í ár og kreppan að mestu búin.En það er ekki verið að hugsa um að afturkalla kjaraskerðinguna frá 2009 og láta þá aldraða og öryrkja,sem misstu grunnlífeyrinn, fá hann á ný.Nei þvert á móti er nú verið að hugsa um að afnema grunnlífeyrinn! Hins vegar er búið að afturkalla tímabundna kjaraskerðingu ráðherra, þingmanna og embættismanna. Þess var gætt, að það mundi ekki dragast.Ekki má skerða kjör hæstlaunuðu embættismanna og stjórnmálamanna landsins of lengi. En aldraðir og öryrkjar mega bíða.Hvers konar stjórnarfar er það,sem stendur svona að málum.Ráðherrar fá leiðréttingu á sínum kjörum en aldraðir ekki.
En það var ekki aðeins, að lífeyrisþegar væru sviptir grunnlífeyrinum 2009.Frekari kjaraskerðing átti sér stað.Frítekjumark vegna atvinnutekna var lækkað úr 1315 þúsund krónum á ári í 480 þúsund krónum á ári. Það fór því niður í 40 þúsund krónur á mánuði.Skerðingarhlutfall tekjutryggingar var hækkað úr 38,35% í 45%.Við þá ráðstöfun lækkuðu tekjur 27.780 lífeyrisþega.Eldri borgarar krefjast þess, að kjaraskerðingin frá 1.júlí 2009 verði þegar í stað afturkölluð.Þeir, sem höfðu grunnlífeyri fyrir þann tíma eiga að fá hann aftur strax að öðru óbreyttu.Landssamband eldri borgara vill, að allir hafi grunnlífeyri.Frítekjumark vegna atvinnutekna verði a.m.k. 110 þúsund krónur á mánuði eins og það var fyrir 1.júlí 2009.Frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna verði að lágmarki jafnhátt.Skerðingarhlutfall tekjutryggingar verði lækkað á ný.
En það er ekki nóg að afturkalla kjaraskerðinguna frá 1.júlí 2009. Það þarf einnig að leiðrétta kjaraskerðinguna,sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir á krepputímanum.Eins og ég hefi sýnt fram á í fyrri greinum hafa aldraðir og öryrkjar dregist aftur úr í launaþróuninni sl. 3 ár.Lífeyrir þeirra hefur hækkað mun minna en laun á þessu tímabili. Til þess að jafna þann mun þarf að hækka bætur lífeyrisþega um a.m.k 20% strax.Öbi telur,að hækka eigi um 30%.
Hvaða úrræði hafa aldraðir og öryrkjar til þess að knýja fram eðlilegar og sanngjarnar leiðréttingar á kjörum sínum? Ekki hafa þeir verkfallsrétt.Nei, þeir hafa aðeins eitt úrræði: Kosningaréttinn.Aldraðir og öryrkjar verða nú að bindast samtökum og gera stjórnmálamönnum grein fyrir því, að þeir muni aðeins kjósa þá, sem eru reiðubúnir að leiðrétta kjör þeirra og sýna það í verki.Alþingiskosningar fara fram innan eins árs.Það er enn tími til þess að ræða við fulltrúa stjórnmálaflokkanna og fá það á hreint hvort þeir eru reiðubúnir að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja. Í því efni duga engin loðin svör. Það verður að vera alveg á hreinu hvernig stjórnmálamenn vilja bæta kjör lífeyrisþega.Stjórnarflokkarnir geta enn tekið sig á og bætt kjör lífeyrisþega, ef vilji er fyrir hendi. En geri þeir það ekki geta þeir ekki reiknað með atkvæðum aldraðra og öryrkja.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu í júní 2012