Eins og margoft hefur verið bent á hefur ójöfnuður aukist mikið hér á landi í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.Aðalástæðan er kvótakerfið en slæm áhrif þess á tekjuskiptinguna hafa stöðugt verið að koma betur og betur í ljós. En einnig hefur stefna stjórnarflokkanna í velferðarmálum og skattamálum haft hér mikil áhrif. Eldri borgarar og öryrkjar hafa ekki fengið leiðréttingu á lífeyri til jafns við kauphækkanir láglaunafólks.Skattbyrði láglaunafólks hefur verið að þyngjast en skattar þeirra,sem hafa mestar tekjur, hafa verið að léttast.
Hagstofan hefur brugðist
Frá því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður hefur engin opinber stofnun haldið til haga tölum um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.Eðlilegast væri að Hagstofan gerði það en svo hefur ekki verið. Mun Ísland eina landið í Vestur Evrópu sem heldur ekki til haga neinum opinberum tölum um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu.Prófessorarnir Þorvaldur Gylfason og Stefán Ólafsson hafa ritað talsvert um tekjuskiptinguna.Má segja,að þeir hafi tekið að sér að fjalla um efni,sem opinberar stofnanir hafa algerlega vanrækt.
Fjórfaldur munur hér
Samkvæmt upplýsingum Þorvaldar Gylfasonar á heimasíðu hans er fjórfaldur munur á tekjum ríkasta og fátækasta fimmtungs mannfjöldans á Íslandi en það er svipaður munur og er í Þýskalandi, Austurríki,Hollandi og Kóreu. Er hvergi svo mikill munur á Norðurlöndum eins og hér á landi. Ójöfnuður en meiri hér á landi en í nokkru hinna Norðurlandanna.Í Noregi,Danmörku og Svíþjóð er umræddur munur þrefaldur en í Bandaríkjunum er munurinn áttfaldur.
Í hagfræðinni eru aðallega tvær aðferðir notaðar til þess að mæla mun á tekjuskiptingu:Gini stuðull og 20/20-hlutfallið. Með20/20 hlutfalli er átt við tekjuhlutfall ríkasta og fátækasta fimmtungs mannfjöldans.
Gini stuðull hækkað um 10 stig frá 1995
20/20 hlutfallið á Íslandi er 4,sem þýðir fjórfaldur munur á tekjum ríkasta og fátækasta fimmtungsins á Íslandi en það samsvarar Gini stuðul 30.Sá stuðull hefur hækkað um 10 stig frá 1995. Haldi Gini-stuðullinn hér áfram að hækka um heilt stig á ári eins og hann hefur gert síðan 1995, þá verður hann kominn upp fyrir Gini-stuðul Bandaríkjanna eftir ellefu ár, og þar er ójöfnuður í tekjuskiptingu nú meiri en annars staðar á OECD-svæðinu.( Byggt er á upplýsingum Þorvaldar Gylfasonar prófessors um Gini stuðul og 20/20 hlutfall).
Björgvin Guðmundsson
|