Í skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar um atvinnuþátttöku eldri borgara segir svo m.a.:
Samkvæmt núgildandi reglum skerðast bætur til ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega
er þeir stunda launavinnu. Skerðingin er mismikil eftir því um hvaða bætur er að ræða.
Á árinu 2006 skertust bætur til ellilífeyrisþega um 1.663 milljónir kr.
Um áramótin 2006/2007 tóku gildi nýjar
reglur sem draga verulega úr þessari skerðingu atvinnutekna. Áætla má að skerðing bóta
til ellilífeyrisþega nemi rúmum 600 milljónum kr. á árinu 2007. Þær breytingar
sem gerðar hafa verið á tekjutengingu bóta leiða til þess að kostnaður ríkissjóðs við að
afnema þessa tekjutengingu með öllu er mun minni en áður.
Í nýlegri könnun kemur fram að tæp 30% eldri borgara gætu hugsað sér að vinna ef það
hefði ekki áhrif á bótarétt frá Tryggingastofnun ríkisins. Þrjátíu prósent af fólki
aldrinum 65 ára til 71 árs eru tæplega 4 þúsund manns. Enda þótt ólíklegt sé að allir sem
gætu hugsað sér að vinna myndu í raun láta til sína taka á vinnumarkaði gefur könnunin
sterka vísbendingu um að tiltölulega margir myndu hefja launað starf.
Ef breytingin á tekjutengingu bóta verður til þess að fleira fólk fer út á vinnumarkað en
nú munu skatttekjur ríkisins aukast. Ekki er líklegt að þjónusta ríkisins við þetta fólk
aukist að neinu ráði þegar það fer að vinna. Þess vegna virðist rétt að líta á skattgreiðslur
lífeyrisþeganna sem tekjuauka fyrir ríkið að mestu leyti. Ef reiknað er með að tæplega 4
þúsund manns á aldrinum 65 ára til 71 árs fari út á vinnumarkaðinn og vinni sér inn sem
nemur meðallaunum fólks á þessum aldri verða skattgreiðslur þessa fólks ríflega 4
milljarðar króna á ári, eða um 3.400 milljónum kr. meira en nemur tapi ríkisins af því að
afnema tekjutengingu ellilífeyris. Fjárhæðin gæti með öðrum orðum verið hærri en það
sem ríkið tapar í auknum bótagreiðslum. Hafa ber í huga að þetta er hámarkstala og að
hún er reist á svörum í skoðanakönnun en ekki raunverulegri hegðun. Hér eru þeir ekki
teknir með í reikninginn sem nú eru ekki á skrá hjá Tryggingastofnun en það eru um
1.850 manns. Líklegt er að fleiri skrái sig þar ef hætt verður að skerða bætur vegna
atvinnutekna.
|