Meðan ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sátu við völd hér um 12 ára skeið var tekið til þess hvað afstaða stjórnvalda var neikvæð til aldraðra og öryrkja. Það þurfti að sækja sjálfsagðar og lögbundnar kjarabætur til dómstólanna.Þegar Samfylkingin kom í ríkisstjórn í stað Framsóknar var talið að afstaðan mundi breytast. Nú yrði afstaða stjórnvalda til aldraðra og öryrkja jákvæð. En því miður. Afstaðan hefur ekki breytst. Afstaða stjórnvalda er enn neikvæð. Það er enn verið að láta einhverja mola falla til aldraðra og öryrkja og síðan hrópa stjórnvöld upp hvað þau séu góð við þessa þjóðfélagshópa.Mér finnst það jafnvel verra,að stjórnvöld skuli berja sér á brjóst og segja að þau geri vel við þessa þjóðfélagshópa þegar það er í skötulíki sem gert er og hvergi nærri það sem lofað var fyrir kosningar.Það er komið í ljós,að aldraðir og örykjar eru afgangshópar hjá þessari ríkisstjórn. Fyrst er leyst úr öðrum málum og síðan að lokum og að síðustu kemur röðin að öldruðum og öryrkjum,ef einhverjir fjármunir eru þá eftir.Þegar spurt er hvers vegna lífeyrir aldraðra hafi ekki verið hækkaður strax eftir kosningar er sagt: Þetta er nú bara fyrsta,ár kjörtímabilsins.Það er nú aldrei venja að gera mikið fyrsta árið!
Hvers vegna tók þetta ekki gildi um áramót?
Aðferðafræðin gagnvart öldruðum og öryrkjum er furðuleg.Fyrst er tilkynnt 5.desember sl.,að í ár,1.apríl,1.júlí og 1.jan 2009 eigi að gera eihverjar ráðstafanir fyrir aldraða og básúnað hvað þetta muni kosta mikið fyrir ríkissjóð. Síðan er þetta aftur tilkynnt fyrir 1.april og aftur vegna 1.júli og verður áreiðanlega aftur básúnað út fyrir næstu áramót. Hvars vegna var ekki það sem tilkynnt var 5.desember látið taka gildi strax.Það tók ekki nema 3 daga að afgreiða eftirlaunaósómann á þingi og hann tók gildi strax.Þá þurfti ekki að veltast með málin lengi .
Það er í rauninni aðeins eitt mikilvægt atriði fyrir aldraðra og öryrkja,sem hefur tekið gildi á þessu ári og það er afnám skerðingar tryggingabóta vegna tekna maka.,sem tók gildi 1.apríl.Hæstiréttur dæmdi fyrir 5 árum að óheimilt væri að skerða bætur vegna tekna maka.Fyrri ríkisstjórn lofaði Landsambandi eldri borgara að þetta yrði framkvæmt um síðustu áramót. Það var því engin undankoma með þetta mál.En ríkisstjórnin lætur eins og hún hafi framkvæmt þetta af einskærri góðmennsku.Hún átti engra annarra kosta völ.Næsta mál ,sem verður framkvæmt er frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra og öryrkja,alls 100 þús. kr. á mánuði.Það tekur gildi 1.júlí n.k. Það er gott svo langt sem það nær en betra hefði verið fyrir eldri borgara að byrja á frítekjumarki vegna lífeyrissjóðstekna.Það eru mikið fleiri í lífeyrissjóðum en nemur fjölda þeirra sem eru á vinnumarkaði.Í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar sagði að setja ætti 100 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna og lífeyrissjóðstekna Það kostar ríkissjóð ekkert að setja frítekjumark vegna atvinnutekna. Ríkið fær þann kostnað allan til baka í auknum skatttekjum.
Lífeyrisþegar fengu 7,4% en launþegar 16%!
Aldraðir og öryrkjar fengu ekki sömu hækkun á lífeyri eins og launþegar fengu á sínum lægstu launum í feb. sl. . Lágmarkslaun hækkuðu um 18000 kr. á mánuði eða um 16% en lífeyrir hækkaði um 9400 kr. á mánuði eða um 7,4%.Hvað var að gerast hér? Stjórnvöld sögðu:Okkur ber engin skylda til þess að hækka lífeyri meira enda þótt hann hafi hækkað eins og laun árið 2006. Kannast einhver við þessi viðbrögð. Eru þetta ekki sömu viðbrögðin og hjá fyrri ríkisstjórn,sömu neikvæðu viðbrögðin.
Það er jafnvel farið að reikna einhverjar framtíðarhækkanir inn í hækkanir á lífeyri og segja,að þegar þær verði komnar til framkvæmda verði lífeyrisþegar búnir að fá sömu hækkun og launþegar.Hvaða bellibrögð eru þetta? Hvaða talnaleikfimi er þetta?Launþegar fengu hækkun frá 1.febrúar og lífeyrisþegar eiga að fá sömu hækkun frá sama tíma.Þannig var þetta 2006 og þannig tel ég að þetta eigi að vera nú.Ef það hefði verið gert væri ekki staðan sú,að lífeyrir aldraðra hefði lækkað sem hlutfall af lágmarkslaunum frá árinu 2007 en nú nemur lífeyririnn 93,74% af lágmarkslaunum en nam 100 % í fyrra. Hann hefur lækkað!
Björgvin Guðmundsson