Föllum fram og þökkum:
Ríkisstjórnin hættir að seilast í framkvæmdasjóð aldraðra!
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara um kjör og aðbúnað eldri borgara,sem birt var fyrir skömmu segist ríkisstjórnin ætla að gera átak í að bæta hjúkrunar--og vistunarmál aldraðra.Segir Landssamband eldri borgara,að þetta sé ein aðalástæða þess,að fulltrúar þess hafi skrifað undir yfirlýsinguna.
Tóku 2,5 milljarða úr framkvæmdasjóði aldraðra!
Í grein í Morgunblaðinu í febrúar á þessu ári skýrði ég frá því, að ríkisstjórnin hefði tekið 2,5 milljarða úr framkvæmdasjóði aldraðra á síðustu 10 árum og notað til reksturs Ríkisstjórnin hefði sem sagt tekið 2,5 milljarða,sem fara áttu í byggingu hjúkrunarheimila og notað í rekstrarhítina,til eyðslu.Nú segir ríkisstjórnin í yfirlýsingu sinni og LEB, að hún ætli að hætta að seilast í framkvæmdasjóð aldraðra! Og við eigum að falla fram og þakka ríkisstjórninni fyrir að hætta að taka peninga úr sjóði sem stofnaður var til þess að kosta framkvæmdir í þágu aldraðra og hver skattgreiðandi í landinu hefur greitt í. Á 7.milljarð króna hefur runnið í framkvæmdasjóð aldraðra á síðustu 10 árum og ef það fé hefði runnið óskipt til byggingar hjúkrunarheimila væri ástandið annað í þeim málum en það er í dag.
Framkoma ríkisstjórnarinnar í málefnum aldraðra er eitthvað á þessa leið: Fyrst níðist ríkisstjórnin á öldruðum,skerðir lífeyri þeirra um marga tugi milljarða og tekur peninga sem fara eiga til framkvæmda og notar í eyðslu. Síðan kemur hún fram fyrir alþjóð og segir ætla að skila einhverju af þessum peningum aftur og þá eiga allir að vera þakklátir.
Björgvin Guðmundsson |