Forseti Íslands synjaði í gær,2.júní 2004,staðfestingar á lögum um fjölmiðla. Fer málið því fyrir þjóðaratkvæði.Hér fer á eftir grein um mál þetta:
Ágreiningur er milli lögspekinga um það hvort forseti Íslands hafi vald til þess að neita að staðfesta lög og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sigurður Líndal fyrrverandi lagaprófessor telur,að forsetinn hafi þetta vald samkvæmt stjórnarskránni. Þór Vilhjálmsson telur,að forsetinn hafi ekki þetta vald.
Vegna fjölmiðlafrumvarpsins
Mál þetta er komið upp nú vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Mikill meirihluti þjóðarinnar telur samkvæmt skoðanakönnunum að forsetinn eigi að neita að skrifa undir lög um eignarhald á fjölmiðlum og vísa því til þjóðarinnar.Sigurður Líndal telur,að mál þetta sé að mörgu leyti heppilegt til þess að leggja undir þjóðaratkvæði. Hér sé um mörg grundvallaratriði að tefla svo sem tjáningarfrelsi,eignarréttarákvæði o.fl. Sigurður Líndal telur,að frumvarpið um eignarhald á fjölmiðlum brjóti í bága við stjórnarskrána.
Málið á að fara undir þjóðaratkvæði
Ég er sammmála Sigurði Líndal í þessu máli . Ég tel eðlilegt,að þetta stóra mál fari undir þjóðaratkvæði.En til þess að svo verði þarf forseti Íslands að neita að skrifa undir lögin um fjölmiðlana og þá fer málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel ákvæði stjórnarskrárinnar alveg skýr í þessu efni. Forseti Íslands hefur valdið. Svo virðist sem meirihlutinn á Alþingi ætli að keyra í gegnum þingið lög,sem mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur. Undir slíkum kringumstæðum er mjög eðlilegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla.
Gæti leitt til stjórnarskipta
Ef forseti Íslands neitar að skrifa undir fjölmiðlalögin gæti það haft miklar pólitískar afleiðingar.Engin lög eru til um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna málskots. Ríkisstjórnin gæti neitað að setja slík lög. Ríkisstjórnin gæti reynt að hindra þjóðaratkvæðagreiðslu. Í slíku tilviki ætti forseti Íslands engan annan kost en að leysa stjórnina frá störfum og skipa nýja til þess að annast þjóðaratkvæðagreiðsluna. Slík ríkisstjórn þyrfti ekki að starfa nema stutt- ef til vill aðeins fram til 15.september! En menn sjá í hendingu hvílík ógnarátök yrðu í stjórnmálunum,ef atburðarásin yrði sú,sem hér hefur verið lýst.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 20.mai 2004 |