Viðræður Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál eru í uppnámi.Íslensk sendinefnd fór til Washington til viðræðna við bandaríska embættismenn en fór fýluferð, þar eð ekkert var um að ræða. Viðræður höfðu ekki verið undirbúnar nógu vel.Þetta leiðir í ljós,að fyrri upplýs-ingar sem gefnar hafa verið um þessi mál, hafa ekki verið réttar.Íslensk stjórnvöld höfðu gefið í skyn,að Bandaríkjamenn væru allir af vilja gerðir,að leysa varnarmálin á þann hátt,sem Íslendingar gætu vel við unað.En það er bara ekki rétt.
Vildu flytja herþoturnar á brott
Staða varnarliðsins komst á dagskrá hér um síðustu kosningar, þegar Bandaríkjamenn tilkynntu skyndilega einhliða að þeir vildu flytja herþoturnar á brott frá Keflavíkurflugvelli. Ríkisstjórnin stakk bréfi um þetta efni undir stól og birti ekki fyrr en eftir kosningar!Síðan hefur staðið í stanslausu stappi um það hvort unnt væri að fá Bandaríkjamenn til þess að falla frá því að flytja herþoturnar á brott. Bandaríkjamenn telja enga þörf á því að hafa þoturnar lengur staðsettar á Keflavíkurflugvelli. Þeir telja unnt að sinna flugvörnum Íslands frá Bretlandseyjum. Jafnframt hefur komið skýrt í ljós af hálfu bandarískra embættismanna,að þeir telja ekki lengur þörf á varnarliði hér á landi vegna breytts ástands í varnarmálum í Evrópu. En íslensk stjórnvöld hafa lamið hausnum við steininn og óskað eftir því,að varnarliðið og herþoturnar verði áfram hér á landi hvað sem líði áliti Bandaríkjanna á nauðsyn varna á Íslandi.Verður þess ekki vart,að Bush Bandaríkjaforseti meti mikils “greiðann”,sem íslenskir stjórnarherrar veittu honum með því að styðja ólöglegt árásarstríð hans á Írak. Eftir nokkurt þref íslenskra og bandarískra stjórnvalda komu Bandaríkjamenn með þá tillögu ,að Íslendingar tækju þátt í kostnaði við veru varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli!Íslendingar eiga sem sagt að borga fyrir að fá að hafa herinn áfram.Þannig stendur málið nú.
NATO meti málið
Ágreiningur um skiptingu kostnaðar er mjög mikill og eru Bandaríkjamenn með óraunhæfar hugmyndir um hlut Ísleninga í kostnaðinum. Ég tel,að best væri að herinn færi frá Íslandi. Varnarliðið kom hingað að frumkvæði Bandaríkjanna vegna ótryggs ástands í heiminum á meðan ógn stafaði frá Sovetríkjunum. Sú ógn er ekki lengur til staðar og Bandaríkjamenn vilja fara með herinn á brott. Við eigum að leyfa þeim það. Síðan eigum við að ræða við NATO um varnir Íslands og biðja NATO að meta nauðsyn Íslands fyrir varnarviðbúnað í landinu. NATO á að tryggja varnir Íslands en þær eiga ekki að byggja á tvíhliða samningi við Bandaríkin,þar eð slíkur samningur miðast við hagsmuni Bandaríkjanna fyrst og fremst.
Björgvin Guðmundsson