Forsætisráðherra skýrði frá því á blaðamannafundi 13.mars 2006, að í undirbúningi væri að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka. Þetta væri ekki endanlega ákveðið en svo virtist sem sátt væri að nást um málið milli ríkis og bankanna.Sjálfstæðisflokkurinn hefur sótt það fast að undanförnu að breyta Íbúðalánasjóði í heilsölubanka og bankarnir hafa barist hatrammlega fyrir þessu.Seðlabankinn studdi þessa breytingu á síðasta ári. Að vísu mundu bankarnir helst vilja, að Íbúðalánasjóður væri lagður niður og bankarnir tækju alfarið við hlutverki sjóðsins.Margir innan Sjálfstæðisflokksins hafa stutt þá kröfu bankanna.Fram til þessa hefur Framsókn staðið gegn þessari kröfu Sjálfstæðisflokksins en nú virðist Framsókn hafa látið undan eins og alltaf hefur gerst í deilumálum við Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár. Það gerðist þegar íhaldið vildi leggja niður Þjóðhagsstofnun. Það gerðist þegar íhaldið vildi skera niður framlag til öryrkja úr 1500 milljónum króna í 1000 milljónir þrátt fyrir loforð um 1500 milljónir og þannig mætti áfram telja.
Engin rök fyrir breytingu
En hvers vegna þarf að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka? Engin frambærileg rök hafa verið flutt fyrir þeirri breytingu.Ég sé enga nauðsyn á þeirri breytingu. Íbúðalánasjóður á að mínu mati að starfa í óbreyttri mynd.Hann hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna sem er að tryggja, að allir landsmenn sitji við sama borð varðandi það að fá íbúðalán. Og það er alveg ljóst, að Íbúðalánasjóður hefur haldið vöxtum á íbúðalánum niðri. Ef Íbúðalánasjóður væri lagður niður mundu vextir á íbúðalánum strax hækka. Bankarnir og sjálfstæðismenn klifa á því, að Íbúðalánasjóður njóti ríkisábyrgðar og hafi að því leyti til forréttindi umfram bankana og það er rétt. En einmitt þess vegna er unnt að gera þá kröfu til sjóðsins,að hann mismuni ekki landsmönnum eftir búsetu.
Lánaði bönkum og sparisjóðum
Íbúðalánasjóður fór á síðasta ári út á þá vafasömu braut að lána bönkum og sparisjóðum 80 milljarða til þess að endurlána húsbyggjendum.Félagsmálanefnd alþingis tók það mál fyrir og var í nefndinni hreyft alvarlegum, athugasemdum við þessar lánveitingar sjóðsins til bankanna. Var talið, að hæpið væri að þessar lánveitingar sjóðsins stæðust lög. Þessar lánveitingar Íbúðarlánasjóðs voru stöðvaðar. .Bankar og sparisjóðir lánuðu íbúðareigendum allt að 25 milljónir króna á íbúð af því fjármagni,sem Íbúðalánasjóður lánaði þeim. En lögum samkvæmt mátti sjóðurinn þá aðeins lána 15,9 milljónir til hvers einstaklings vegna íbúðarkaupa. Er því ljóst,að þarna var Íbúðalánasjóður að fara í kringum lögin. Sjóðurinn hafði fjármagn og var að reyna að taka þátt í samkeppni við bankana,sem voru farnir að lána mikið hærra út á hverja íbúð. Þrátt fyrir þessi mistök Íbúðalánasjóðs tel ég, að standa eigi vörð um sjóðinn og að hann eigi að starfa í óbreyttri mynd. Bankarnir eiga ekki að ráða skipulagi Íbúðalánasjóðs.
Liður í að leggja niður Íbúðarlánasjóð
Framsóknarflokkurinn lagði niður verkamannabústaðakerfið ( félagslega íbúðakerfið) með einu pennastriki.Í staðinn hét það svo, að fólk, sem uppfyllti viss skilyrði, ætti að geta keypt félagslegar íbúðir á frjálsum markaði með fjármunum á lægri vöxtum frá Íbúðalánasjóði.Þessi leið hefur verið að þrengjast og hverfur sjálfsagt fljótlega. Nú vill Framsókn og íhaldið breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka. Ef það verður gert er það fyrsta skrefið í áttina til þess að leggja sjóðinn niður. Þess vegna ber að varast þessa breytingu. Best er, að sjóðurinn starfi í óbreyttri mynd.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 18.apríl 2006
|