Ég taldi víst, þegar Samfylkingin gekk til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í maí eftir þingkosningar, að lífeyrir aldraðra yrði stórhækkaður á árinu eins og kosningaloforð voru gefin um.En þær vonir hafa brugðist. Í staðinn ákvað ríkisstjórnin að draga úr skerðingum tryggingabóta ( lífeyris) hjá þeim, sem væru á vinnumarkaði. Það er gott svo langt sem það nær en ég tel,að hér sé byrjað á öfugum enda. Það á að byrja á því að leiðrétta lífeyrinn svo hann dugi til sómasamlegrar framfærslu.Síðan eða samhliða má draga úr skerðingum og tekjutengingum.Það er ekki unnt að ganga út frá því, að allir ellilífeyrisþegar séu á vinnumarkaði.
Neysluútgjöld komin í 226 þús.á mánuði
Samfylkingin gagnrýndi harðlega í þingkosningunum vorið 2007, að lífeyrir aldraðra hefði ekki hækkað í samræmi við vísitöluhækkanir. Lífeyrir aldraðra hefði dregist aftur úr í launaþróuninni. Samfylkingin sagði: Við ætlum að leiðrétta þetta. Samfylkingin sagðist ætla að láta lífeyri aldraðra duga fyrir framfærslukostnaði í samræmi við opinera neyslukönnun Ný neyslukönnun Hagstofunnar var birt 18.desember 2007. Samkvæmt henni eru neysluútgjöld einstaklinga komin upp í 226 þúsund á mánuði, til jafnaðar, að viðbættri verðlagshækkun frá því könnunin var gerð.Skattar eru ekki meðtaldir.Samfylkingin sagðist vilja leiðrétta lifeyri aldraðra í áföngum. Formaður Landssambands eldri borgara, Helgi K.Hjálmsson, segir, að hækka þurfi lífeyri aldraðra í 200 þúsund á mánuði..
60+ , samtök aldraðra i Samfylkingunni, samþykkti í nóvember 2007, að hækka ætti lífeyri aldraðra í þá upphæð, er næmi neysluútgjöldum einstaklinga og að fyrsti áfangi þeirrar hækkunar ætti að taka gildi fyrir lok ársins 2007.Það varð ekki.
Farið á svig við samþykkt 60+
Því miður var í fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar algerlega farið á svig við framangreinda samþykkt 60+ og einnig gengið gegn kosningaloforðum Samfylkingarinnar í þessu efni.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar fyrir aldraða og öryrkja, sem taka eiga gildi á tímabilinu 1.apríl n.k. til loka árs 2008 taka aðeins til þeirra, sem eru á vinnumarkaði. Það á að draga úr skerðingu tryggingabóta hjá þeim sem eru á aldrinum 67-70 ára og vilja vinna. Ríkisstjórnin hefur ákveðið 100 þúsund króna frítekjumark á mánuði fyrir þennan hóp eldri borgara. Einnig á að afnema skerðingu tryggingabóta aldraðra vegna tekna maka.Þar er um mikið réttlætismál að ræða. Hæstiréttur hefur úrskurðað, að það brjóti í bága við stjórnarskrána að skerða lífeyri öryrkja vegna tekna maka þeirra.Það sama hlýtur að gilda um ellilífeyrisþega. Þess vegna hefði
þessi breyting átti að taka gildi strax í kjölfar dóms Hæstaréttar en mörg ár eru liðin síðan sá dómur var kveðinn upp.Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst gerði könnun á því hve margir eldri borgarar mundu nýta sér það að vinna, ef skerðing tryggingabóta vegna atvinnutekna þeirra, yrði afnumin eða lækkuð.Í ljós kom,að 30% mundu nýta sér það. Rannsóknarsetur verslunarinnar segir, að það mundi þýða 4 milljarða auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð.Samkvæmt því mundi það kosta ríkið lítið sem ekki neitt að draga úr skerðingu tryggingabóta á þann hátt sem ríkisstjórnin hefur boðað.
Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst,að Samfylkigin hefur ekki á síðustu 7 mánuðum staðið sig betur í velferðarmálum i ríkisstjórn en Framsókn gerði.Ríkisstjórnin verður ekki dæmd af orðum og yfirlýsingum. Hún verður dæmd af verkum sínum.Samylkingin verður að taka sig mikið á í velferðarmálum til þess að standa undir væntingum og kosningaloforðum.Um síðustu áramót tók Jóhanna Sigurðardóttir við lífeyristryggingum almannatrygginga.Það er nú í hennar verkahring að leiðrétta lífeyri aldraðra og öryrkja á þann hátt,að unnt verði að lifa mannsæmandi lífi af honum.Ef Jóhanna stendur sig í þessu verkefni getur hún bætt stöðu Samfylkingarinnar í velferðarmálunum. Samfylkingin á eftir að sýna það,að hún standi sig betur í ríkisstjórn en Framsóknarflokkurinn.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 23.jan. 2008