Birgir Hermannson,stjórnmálafræðingur,fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar sem umhverfismálaráðherra, gagnrýnir kosningabaráttu Samfylkingarinnar fyrir síðustu þingkosningar og sérstaklega gagnrýnir hann Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Birgir setur gagnrýni sína fram í tímaritinu,Ritið, en Morgunblaðið birtir frétt um grein Birgis.Birgir Hermannson gagnrýnir það,að Ingibjörg Sólrún skyldi látin skipa 5.sæti á framboðslista Samfylkingar í Reykjavík og einnig gagnrýnir hann Borgarnesræður Ingibjargar.
AUÐVELT AÐ VERA VITUR EFTIR Á
Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Ef Ingibjörg Sólrún hefði náð kjöri og ég tala nú ekki um,ef hún hefði orðið forsætisráðherra,þá hefðu allir verið ánægðir og Birgir Hermannsson einnig. En það vantaði aðeins herslumuninn á það að Ingibjörg Sólrún næði inn á þing og þess vegna eru margir óánægðir og þar á meðal Birgir. Ingibjörg Sólrún skipaði 5.sætið vegna þess að prófkjörum var lokið, þegar hún ákvað að fara í framboð og hún vildi ekki íta einhverjum út sem náð hafði sæti ofar á lista.Ingibjörg Sólrún hætti við að fara í prófkjör af tillitssemi við Framsóknarflokkinn og Vinstri græna,samstarfsaðila Samfylkingarinnar í R-listanum en þessir flokkar báðir lögðust gegn því að Ingibjörg Sólrún sæktist eftir efsta sæti framboðslista í Reykjavík.Það er almennt viðurkennt,að Ingibjörg Sólrún dró mikið fylgi að Samfylkingunni í Reykjavík.
BORGARNESRÆÐURNAR GÓÐAR
Ég tel,að Borgarnesræður Ingibjargar Sólrúnar hafi verið mjög athyglisverðar og góðar. Hún hreyfði þar nýju efni: Stjórnunarstíl Sjálfstæðisflokksins ( og Davíðs) og lýðræði almennt. Hún gagnrýndi það,að stjórnvöld væru að skipta fyrirtækjum í flokka eftir því hvort þau væru þóknanleg valdhöfum eða ekki. Hún sagði, að setja ætti skýrar eftirlitsreglur og hafa öflugt eftirlit með fyrirtækjum en að öðru leyti ættu valdhafar ekki að skipta sér af fyrirtækjum. Í dag telja allir að þetta hafi verið sjálfsagt umræðuefni,einkum nú þegar á ný er ráðist á viss fyrirtæki og skyndilega sett fram krafa um lög gegn hringamyndun og um eignarhald á fjölmiðlum. Það,sem var að í kosningabaráttunni, var það,að forusta Samfylkingar og frambjóðendur fylgdu ekki eftir efninu í ræðum Ingibjargar Sólrúnar og Vinstri grænir tóku ekki undir gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar af annarlegum ástæðum.
Björgvin Guðmundsson
|