Sr. Örn Bárður Jónsson sat fyrir svörum í Kastljósi sjónvarpsins 9.mai sl. Rætt var m.a. um predikun sr. Arnar 18.apríl sl. en þá gerði presturinn m.a. Íraksstríðið að umtalsefni og gagnrýndi íslenska ráðamenn harðlega fyrir að láta Ísland lýsa yfir stuðningi við stríðið. Í umræddri predikun sagði sr. Örn m.a,að Bush hefði tekist “að draga þjóð okkar á asnaeyrum inn í stríð og ófriðarfen sem enginn eygir lausn á”.
Sr. Örn sagði í Kastljósi,að Ísland bæri ábyrgð á þeim pyntingum,sem hernámsliðið í Írak hefði orðið uppvíst að, þar eð Ísland bæri ábyrgð á innrásinni eins og hermennirnir,sem ráðist hefðu inn í landið.
Má klerkur tala um stjórnmál?
Fréttamaður sjónvarpsins spurði klerk hvort hann mætti ræða um stjórnmál og utanríkismál í predikun í Neskirkju. Prestur sagðist hafa fullt leyfi til þess,ef hann færi ekki út fyrir viss mörk.Margir hefðu rætt við sig um umrædda predikun og flestir verið ánægðir með hana. Sr. Örn sagði,að hann væri þjónn biskups þó hann starfaði í Neskirkju. Sóknarnefndin gæti ekki tekið af honum málfrelsið. Ísland væri frjálst land og menn mættu túlka skoðanir sínar hér á landi óhindrað.
Björgvin Guðmundsson
|