Fyrir síðustu alþingiskosningar,sem fram fóru sl. ár,gumuðu fulltrúar stjórnarflokkanna af því,að þeir hefðu bætt mikið kjör aldraðra og öryrkja. Vísuðu þeir í því sambandi í samkomulag,sem ríkisstjórnin gerði við samtök aldraðra í nóvember 2002 og í samkomulag um bætt kjör ungra öryrkja,sem heilbrigðisráðherra gerði við Öryrkjabandalag Íslands í mars 2003. Samkomulagið frá nóvember 2002 færði öldruðum sáralitlar kjarabætur. Með því var aðeins verið að skila öldruðum til baka litlu broti af því,sem ríkisstjórnin hafði haft af öldruðum á mörgum undanfarandi árum. Ólafur Ólafsson,formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, taldi,að samtök aldraðra hefðu verið of undanlátssöm,þegar þau samþykktu samkomulagið í nóvember 2002. Gert var ráð fyrir því í kjölfar samkomulagsins,að fundir yrðu haldnir reglulega í starfshóp ríkisstjórnar og aldraðra en þrátt fyrir óskir aldraðra um fundi í starfshópnum hafa þeir ekki verið haldnir. Enginn fundur hefur verið haldinn frá því alþingiskosningar fóru fram! Málefni aldraðra gleymdust strax eftir kosningar.
Samkomulag við öryrkja svikið að verulegu leyti
Ef litið er á efndir á samkomulaginu við öryrkja verður ekkert betra upp á teningnum.Samkomulagið var að verulegu leyti svikið. Því var lofað að bæta kjör öryrkja um 1,5 milljarð króna með hækkun á bótum öryrkja samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um.Einkum skyldi bæta kjör ungra öryrkja.Reiknað var út að framkvæmd samkomulagsins mundi kosta 1528,8 millj.kr. Þegar til kastanna koma vildi ríkisstjórnin og heilbrigðisráðhera aðeins láta 1000 millj. í framkvæmd samkomulagsins.Öryrkjar voru því sviknir um 500 millj. kr. í auknum bótum,sem lofað hafði verið. Og það er eins með þessar “ kjarabætur” til handa öryrkjum og bætur aldraðra. Það var aðeins verið að skila til baka hluta af því,sem ríkisstjórnin hafði haft af öryrkum á undanfarandi árum. Aldraðir og öryrkjar eiga í rauninni stórfé inni hjá ríkinu. Er þá miðað við,að þeir hefðu að sjálfsögðu átt að fá sl. 9 ár sömu kjarabætur og láglaunafólk á almennum vinnumarkaði en öryrkjar og aldraðir hafa aðeins fengið hluta þeirra kjarabóta,sem láglaunafólk hefur fengið. Láglaunafólk hefur fengið 52% aukningu kaupmáttar frá árinu 1990 en aldraðir hafa aðeins fengið 25%.Fram til ársins 1995 fengu aldraðir og öryrkjar sjálfvirkt þær kjarabætur,er hinir lægst launuðu fengu. En 1995 var skorið á þessi tengsl og síðan hafa aldraðir og öryrkjar verið hafðir útundan í launaþróuninni.Þessa “kjaraskerðingu” þarf að leiðrétta.Ríkisstjórninni ber skylda til þess.
Eldri öryrkjar fengu litla leiðréttingu
Það er svo annað mál,að ég efast um að það standist jafnréttisákvæði,að bæta aðeins kjör hluta öryrkja með sérstöku samkomulagi en ekki þeirra allra eða að bæta mun meira kjör yngri öryrkja en þeirra sem eldri eru. Sumir eldri öryrkja fengu litlar sem engar hækkanir.Rökin fyrir þessari lausn eru þau,að yfirleitt séu kjör þeirra,sem verða ungir öryrkjar verri en þeirra sem verða öryrkjar eldri,m.a. vegna þess, að almennt njóti þeir,sem verða öryrkjar eldri lífeyris úr lífeyrissjóði,miðað við að þeir hafi verið í starfi áður og greitt í lífeyrissjóð.Í þessu sambandi ber þó að athuga,að ef þeir fá verulegar greiðslur úr lífeyrissjóði skerðist tekjutrygging þeirra og heimilisuppbót fellur niður. Ég hefði talið eðlilegast að bæta kjör allra öryrkja jafnt.
Lífeyrir Tryggingastofnunar dugar ekki til framfærslu
Ellilífeyrisþegar, einhleypingar,sem ekki fá greiðslur úr lífeyrissjóði, geta nú fengið mest í kringum 100 þús. kr. á mánuði í lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Er þá miðað við,að þeir fái auk grunnlífeyris og tekjutryggingar heimilisuppbót og tekjutryggingarauka.Það er tiltölulega fámennur hópur sem fær þessa fjárhæð frá Tryggingastofnun,þar eð ef um einhverjar tekjur eða lífeyrissjóðsgreiðslur er að ræða fellur heimilisuppbót og tekjutryggingarauki niður. Þessi fjárhæð,100 þús kr. á mánuði, dugar ekki til framfærslu samkvæmt áliti sérfræðinga. Harpa Njáls,félagfræðingur,taldi í riti sínu Fátækt á Íslandi,að það vantaði um 40 þús kr á mánuði upp á,að bætur Tryggingastofnunar dygðu til framfærslu. Samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Íslands,sem nýlega var birt, vantar enn meira upp á. Mun ég nánar fjalla um það mál síðar hér í blaðinu.
Það er til skammar,að ríkisstjórnin skuli ekki hafa séð til þess,að aldraðir og öryrkjar fengju nægan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Það er lágmarksleiðrétting,að aldraðir og öryrkjar fái þær bætur sem hafðar hafa verið að þeim frá 1995 og að síðan verði bæturnar mánaðarlega það háar,að þær dugi fyrir sómasamlegri framfærslu. Aldraðir og öryrkjar eiga að geta lifað með reisn. Ísland hefur efni á því,að veita þeim slík kjör.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 3.ágúst 2004
|