Eitt besta framtak félagshyggjumanna var framboð R-listans í Reykjavík undir forustu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.R-listinn náði frábærum árangri og sigraði Sjálfstæðisflokkinn í þrennum kosningum.Framboð og árangur R-listans í Reykjavík sýndi hvað félagshyggjumenn geta gert með góðu samstarfi og þegar vel er að verki staðið .Er ekki unnt að efna til slíks samstarfs um landsstjórnina? Jú vissulega. Það er unnt að efna til nokkurs konar " R- lista" samstarfs um ríkisstjórn landsins.Ég tel , að " R- lista" ríkisstjórn sé æskilegasta ríkisstjórnin eins og staðan er nú.Samfylking, Vinstri græn og Framsókn ættu nú að taka höndum saman um stjórn landsins.Það yrði nokkurs konar " R-lista " samstarf.
Ekki allir Framsóknarmenn með íhaldinu
Í þætti Egils Helgasonar, Silfri Egils, 13.mai var rætt um úrslit kosninganna og hugsanlegt stjórnarsamstarf. Meðal þátttakenda í þættinum var nýr þingmaður Framsóknar, Bjarni Harðarson.Hann sagði, að hann teldi vænlegra fyrir Framsóknarflokkinn að taka þátt í ríkisstjórn með vinstri flokkunum heldur en að halda áfram samstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Bjarni sagði m.a. í þessu sambandi, að Framsóknarflokkurinn hefði greinilega misst fylgi til vinstri flokkanna.Til þess að endurheimta það fylgi yrði Framsókn að fara í vinstri stjórn. Þetta sjónarmið virðist rökrétt. Ef Framsókn heldur áfram að vinna með Sjálfstæðisflokknum má reikna með því, að fylgið haldi áfram að fara frá Framsókn yfir á vinstri flokkana.Raunar má segja, að Framsókn bjóðist nú einstakt tækifæri. Ef "kaffibandalagið" hefði fengið meirihluta í kosningunum hefði það myndað stjórn án aðildar Framsóknar. En svo fór ekki og þess vegna er Framsókn nú eins og oft áður í lykilhlutverki og getur ráðið því hvort hér situr hægri stjórn eða vinstri stjórn.
Morgunblaðið reynir að blekkja Framsókn
Morgunblaðið segir í leiðara 14.mai, að
Framsókn geti alveg eins endurskipulagt sig í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eins og utan hennar.Þetta er blekking. Og þarna er Mbl. að reyna að plata Framsókn.Það er alger sjálfseyðing fyrir Framsókn að vera áfram í ríkisstjórn með íhaldinu. Framsókn galt algert afhroð í þingkosningunum.Flokkurinn tapaði 5 þingsætum,fór úr 12 sætum í 7. Flokkurinn fékk 11,7% en það er minnsta fylgið í sögu flokksins. Flokkurinn hefur stöðugt tapað fylgi frá því flokkurinn settist í stjórn með íhaldinu 1995. Í kosningunum 1995 fékk flokkurinn 23,3% en eftir 4 ár í stjórn með íhaldinu fór fylgið í 18,4%,árið 2003 í 17,7 % og nú í 11,7%,þ.e. algert hrun.
Samfylkingin tapaði 2 þingmönnum
Samfylkingin fékk 26,8% nú og missti 2 menn en tæp 31% árið 2003. Hvers vegna fékk Samfylkingin ekki meira fylgi? Sumir benda á, að þetta fylgi sé mikið í sögulegu samhengi og það er rétt. Fylgið er álíka mikið hjá vinstri flokkunum nú og var hjá A- flokkunum 1978 en þá unnu þeir stórsigur.En þó þetta sé rétt er fylgið nú ekki nóg..Samfylkingin vann stórsigur 2003 með Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherraefni.Það var því búist ið, að eftir að Ingibjörg Sólrún væri orðin formaður mundi hún vinna enn stærri sigra en svo varð ekki. Hver er skýringin? Ég held ,að hún liggi í breyttri "taktik".Samfylkingin hefur verið mikið mildari í málflutningi nú en áður. Samfylkingin hefur farið silkihönskum um Sjálfstæðisflokkinn.Fyrir kosningarnar 2003 gerði Samfylkingin harða hríð að Sjálfstæðisflokknum og uppskar tæp 31% fylgi. Milda línan skilaði 26, 8%.Það ekki nóg. Annað atriði vill ég nefna. Það er kvótamálið.Samfylkingin minntist ekki á kvótakerfið og ranglæti þess í kosningabaráttunni. Í kosningunum 2003 ræddi Samfylkingin þetta mál mikið.Hún fékk mörg atkvæði út á það.Ég veit , að núna missti Samfylkingin mörg atkvæði af þessum sökum.
Samfylkingin verður að vera trú stefnumálum sínum.
Björgvin Guðmundsson |