Morgunblaðið gagnrýnir Samfylkinguna harðlega í forustugrein 10.júní sl. Finnur blaðið Samfylkingunni allt til foráttu en þó einkum það, að Samfylkingin sé ekki nógu stefnuföst! Grein þessi er hin furðulegasta einkum, þegar tekið er tillit til þess, að síðustu daga og vikur hefur Morgunblaðið verið að mæra og prísa Framsóknarflokkinn stöðugt í forustugreinum og í Reykjavíkurbréfum. Enda þótt Framsóknarflokkurinn hafi logað allur í illdeilum og alger upplausn ríkt í flokknum hefur Morgunblaðið stöðugt verið að hrósa flokknum.Ekki er þó stefnufestunni fyrir að fara hjá Framsókn nú fremur en áður.Auk þess hefur Morgunblaðið hrósað Vinstri grænum upp í hástert undanfarið og er greinlegt, að Sjálfstæðismenn vilja hafa Vinstri græna til taks sem nýja hækju, ef Framsókn dugar ekki lengur. Morgunblaðið ræðst á Samfylkinguna en hrósar Framsókn og Vinstri grænum.
Er þetta sjálfsgagnrýni?
Athyglisvert er, að það sem Morgunblaðið gagnrýnir Samfylkinguna fyrir er það sem helst má finna að Sjálfstæðisflokknum.Þannig gagnrýnir Morgunblaðið Samfylkinguna fyrir skort á stefnufestu í varnarmálum. En hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í varnarmálum? Hún er sú að bíða eftir því sem Bandaríkjamenn vilja gera í varnarmálum Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga sjálfstæða stefnu í varnarmálum.Samfylkingin hefur hins vegar viljað taka upp samstarf við Evrópu í varnarmálum vegna þess að Bandaríkin hafa brugðist. Samfylkingin vill,að Ísland taki sjálft frumkvæði í varnarmálum en bíði ekki eftir útspili frá Bandaríkjunum. Mbl. gagnrýnir Samfylkinguna einnig fyrir stefnuna í málefnum Evrópusambandsins og segir flokkinn ekki vita í hvora löppina hann eigi að stíga í þeim málum. En hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í málum ESB. Hún er sú,að segja ekki neitt! Meðan Davíð stjórnaði mátti ekki tala um ESB. Og flokksmenn létu bjóða sér það. Núna er flokkurinn klofinn í tvennt í málinu. Annar hlutinn vill skoða ESB aðild jákvætt.Hinn hlutinn má ekki heyra ESB nefnt. Stefna Samfylkingarinnar er skýr í þessu máli. Flokkurinn vill ákveða samningsmarkmið Íslands í viðræðum við ESB og láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðsu um þau.Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 10.júní kom fram, að Samfylkingin vill þegar í stað taka upp aðildarviðræður við ESB og láta reyna á samningsmarkmið Íslands. Stefna Samfylkingarinnar er því skýr en Sjálfstæðisflokkurinn er villuráfandi í flestum stórmálum.Þegar Morgunblaðið er að gagnrýna Samfylkinguna fyrir stefnuleysi í varnarmálum og málefnum ESB er í rauninni um sjálfsgagnrýni að ræða. Morgunblaðið er í rauninni að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn.
Samfylkingin vill reglur um stórfyrirtæki
Morgunblaðið segir einnig, að Samfylkingin vilji ekki setja reglur um stórar fyrirtækjasamsteypur til þess að sporna gegn of miklum samruna fyrirtækja. Þetta er alrangt. Þegar ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um þetta efni barðist Samfylkingin gegn því, að dregið væri úr eftirliti með fyrirtækjasamtökum en ríkisstjórnin tók ekki tillit til gagnrýni Samfylkingarinnar.Hún dró úr eftirliti þrátt fyrir gagnrýni Samfylkingarinnar á frumvarpið. Morgunblaðið er því að skamma ríkisstjórnina þegar það ræðst á Samfylkinguna fyrir stefnuleysi í þessu máli. Morgunblaðið er greinlega óánægt með stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins. En í stað þess að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn ræðst blaðið á Samfylkinguna og gagnrýnir hana harðlega. Skrítin vinnubrögð það.
Morgunblaðið skrifar um stjórnmálaflokkana eins og flokksblað en ekki eins og hlutlaust fréttablað,sem vill láta alla taka mark á sér.Blaðið skrifar ekki á sanngjarnan hátt um Samfylkinguna.Gagnrýni Morgunblaðsins á Samfylkinguna er ekki réttmæt og ástir Morgunblaðsins á Framsókn eru óeðlilegar
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 12.júní 2006 |