Í lok júlí sl. náðist rammasamkomulag hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) í Genf um lækkun landbúnaðarstyrkja,tollalækkanir og fleira,sem greiða á fyrir frekari fríverslun þjóða heims,m.a. með landbúnaðarvörur.Alþjóðaviðskiptastofnunin,áður GATT,Hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti, hefur um langt skeið unnið að almennri lækkun tolla á iðnaðarvörum og hefur náð verulegum árangri á því sviði. Erfiðara hefur reynst að ná árangri á því sviði að auka fríverslun með landbúnaðarvörur. Ráðstefna WTO í Cancun í Mexico sl. haust snérist fyrst og fremst um landbúnaðarvörur en fór út um þúfur. Þess vegna var það mikið fagnaðarefni,er fundur WTO í Genf náði rammasamkomulagi um landbúnaðarvörur 31.júlí sl.
Það er mikið hagsmunamál fyrir þróunarríkin að viðskipi með landbúnaðarvörur verði gerð frjálsari, með lækkun tolla og afnámi styrkja og niðurgreiðslna í iðnríkjunum og almennt. En einnig er þetta mikið hagsmunamál neytenda í þróuðum ríkjum eins og á Íslandi,þar eð þá geta landbúnaðarvörur lækkað í verði og neytendur fengið kjarabætur í því formi.Ætla hefði því mátt,að íslensk stjórnvöld og samningamenn Íslands í Genf hefðu fagnað rammasamkomulagi um lækkun landbúnaðarstyrkja og frjálsari viðskipti með búvörur. En það er nú öðru nær. Fulltrúar íslenskra stjórnvalda,ráðherra og samningamaður Íslands, keppast við,að lýsa því yfir,að Ísland geti örugglega fengið undanþágur og þurfi því ekki í bráð að lækka styrki til landbúnaðar mikið. Lesa má út úr þessum ummælum að Ísland geti haldið sömu höftum og áður í viðskiptum með búvörur og látið neytendur greiða jafnhátt verð og áður fyrir þær.
..
Einn virtasti hagfræðingur samtímans,Jeffrey D.Sachs, var á ferð á Íslandi fyrir skömmu.Flutti hann erindi hér.Gagnrýndi hann harðlega stefnu iðnríkjanna í málefnum þróunarríkjanna. Einkum gagnrýndi hann stefnu þeirra varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur en ríku löndin hafa ekki viljað hleypa ódýrum landbúnaðarvörum inn á markaði sína.Mesta kjarabótin fyrir fátæku löndin væri að hér yrði breyting á. Í rauninni er það svo,að fátæku löndin hafa ekki fengið að taka þátt í hnattvæðingunni.Ríku löndin hafa afnumið tolla á iðnaðarvörum og haft mikinn hag af því m.a. með sölu slíkra vara til þróunarlanda en þegar kemur að landbúnaðarvörum er annað uppi á teningnum. Ísland er að nokkru leyti undir sömu sök selt. Það hefur viljað vernda sinn landbúnað óeðlilega mikið. Viss vernd á rétt á sér en ekki svo mikil,að íslenskir neytendur verði að greiða mikið hærra verð fyrir búvörur en erlendir neytendur.
Styrkir íslenska ríkisins til landbúnaðarins eru með því mesta,sem þekkist í ríkjum OECD. Þeir nema á ári í kringum 10 milljörðum kr. Þetta er hár skattur á íslenska neytendur og kominn tími til þess að lækka þessa styrki verulega.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 11.ágúst 2004
|