Alþýðusamband Íslands hefur gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að gera ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012,að lífeyrir aldraðra og öryrkja og aðrar bætur hækki aðeins um 3,5% næsta ár,þegar gert er ráð fyrir 5,1% verðbólgu.Sem formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík tek ég undir þessa gagnrýni ASÍ. Stutt er síðan velferðarráðherra kleip af hækkun lægstu bóta aldraðra til samræmis við hækkun lægstu launa samkvæmt samkomulagi ASÍ og ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninganna sl. vor.Lægstu laun hækkuðu samkvæmt kjarasamningum um 10,3% 1.júní sl. en lægstu bætur hækkuðu aðeins um 6,5%.Nú á aftur að höggva í sama knérunn og klípa af bótum aldraðra og öryrkja.
Fengu aðeins hálfa verðlagsuppbót 2008/2009
Um áramótin 2008/2009 fengu aldraðir og öryrkjar ekki þá verðlagsuppbót,sem þeim bar.Þá hafði verðbólgan verið tæp 20% en 3/4 lífeyrisþega fengu aðeins 9,6% verðlagsuppbót,þ.e. hálfa verðlagsuppbót.Aðeins þeir sem voru á strípuðum bótum fengu þá fulla verðlagsuppbót.Árið 2009 og 2010 hækkaði kaup láglaunafólks um 16% en á því tímabili fengu aldraðir og öryrkjar enga hækkun.Þeir máttu bera verðbólguna bótalaust.Það er því alltaf verið að höggva í sama knérunn.Það er alltaf verið að níðast á öldruðum og öryrkjum.
Þegar fulltrúar eldri borgara ræddu við Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ um hækkun tryggingabóta til jafns við launahækkanir samþykkti hann beiðni eldri borgara þar um en taldi erfitt eða ókleift fyrir ASÍ að biðja um leiðréttingu fyrir liðinn tíma (vegna 16% hækkunar á kaupi láglaunafólks).Eldri borgarar voru tiltölulega ánægðir með hækkun bóta 1.júní sl. en töldu þó að lægstu bætur hefðu hækkað of lítið miðað við hækkun lægstu launa.
Kjaraskerðingin frá 2009 verði afturkölluð strax
Eldri borgarar hafa ekki fengið neina leiðréttingu vegna þeirrar kjaraskerðingar,er framkvæmd var á kjörum þeirra 1.júlí 2009.Eldri borgarar krefjast þess að sú kjaraskerðing verði strax afturkölluð.Staða ríkisfjármála hefur lagast það mikið,að unnt ætti að vera að afturkalla kjaraskerðinguna.Við erum að fara út úr kreppunni.Hagvöxtur er byrjaður.Þess vegna er leiðrétting á kjörum aldraðra tímabær.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 19.okt. 2011