Af og til eru vissir talsmenn Sjálfstæðisflokksins að þakka Sjálfstæðisflokknum viðskiptafrelsið,sem hér ríkir nú. Það er því ekki úr vegi að rifja upp hvaða flokkar og hvaða stjórnmálamenn stóðu einkum að því að innleiða frjálsræði á sviði viðskipta og fjármagnsflutninga.
Gylfi Þ.Gíslason hóf starfið
Í tíð viðreisnarstjórnar Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins beitti Gylfi Þ.Gíslason, viðskiptaráðherra Alþýðuflokksins,sér fyrir afnámi innflutningshafta.Samkvæmt tillögum Gylfa voru nær allar vörur settar á frílista og innflutningur þeirra varð frjáls.Í beinu framhaldi af þessu barðist Gylfi fyrir inngöngu Íslands í EFTA,Fríverslunarsamtök Evrópu. Voru mjög margir á Alþingi andvígir inngöngu Íslands í EFTA,einkum þingmenn Alþýðubandalagsins og margir úr Framsókn.En tillögur Gylfa um aðild að EFTA voru samþykktar á alþingi. Það skref ruddi brautina fyrir aðild Íslands að EES,Evrópska efnahagssvæðinu.Án aðildar að EFTA hefði ekkert orðið úr aðild að EES.
Jón Baldvin kom okkur í EES
Það kom í hlut Jóns Baldsins Hannibalssonar,þá utanríkisráðherra og formanns Alþýðuflokksins að berjast fyrir aðild Íslands að EES. Mættu tillögur hans þar um mikilli andstöðu á alþingi í fyrstu. Sjálfstæðisflokkurinn var í upphafi mjög andvígur tillögunum og vildi að fremur yrði gerður tvíhliða samningur milli Íslands og Evrópusambandsins. En með harðri baráttu tókst Jóni Baldvin að fá tillögur um aðild Íslands að EES samþykktar. Þar með fékk Jón Baldvin samþykkt á alþingi að Ísland samþykkti frelsin fjögur,þ.e. frjálsræði á sviði. vöruviðskipta,fjármagnsflutninga,vinnuaflsflutninga og þjónustuflutninga.Samningurinn fól einnig í sér fullt frelsi til atvinnurekstrar hvar sem er á svæði. EES.Það var þessi samningur,sem færði Íslandi fullt frelsi á sviði viðskipta og þar á meðal frelsi í fjármagnsflutningum.
Jón Sigurðsson hóf afnám útflutningshafta
Jón Sigurðsson,viðskiptaráðherra Alþýðuflokksins, gaf fjármagnsflutningana frjálsa að fullu til þess að uppfylla ákvæði EES-samningsins. Jón Sigurðsson hóf einnig að losa um höftin í útflutningsversluninni,opnaði t.d. fyrir útflutning á freðfiski en Jón Baldvin lauk því verki og gaf m.a. frjálsan útflutning á saltfiski. Áhrifamenn Sjálfstæðisflokksins í sölusamtökum fiskafurða voru algerlega andvígir því að gefa útflutninginn frjálsan. Af framangreindu er ljóst,að ef einhver einn stjórnmálaflokkur á heiðurinn af því að hafa komið á viðskiptafrelsi þá er það Alþýðuflokkurinn : Gylfi Þ.Gíslason hóf þetta starf í viðreisnarstjórninni og kom okkur í EFTA, Jón Baldvin kom okkur í EES og kom á fullu frjálsræði í vöruviðskiptum og fjármagnsflutningum og hann ásamt Jóni Sigurðssyni gerðu útflutningsverslunina frjálsa.
Sjálfstæðisfokkurinn dró lappirnar
Það er því hálf skoplegt,þegar vissir íhaldsmenn eru að eigna Sjálfstæðisflokknum viðskiptafrelsið. Sjálfstæðisflokkurinn dró alltaf lappirnar í þessum málum. Ef sá flokkur hefði mátt ráða hefði Ísland ekki gengið í EES og þá hefði fullt frelsi á sviði fjármagnsflutninga ekki tekið gildi.Við hefðum ef til vill ei að síður komið á frelsi í viðskiptum í samræmi við alþjóðlega þróun en fullyrða má,að það hefði tekið mikið lengri tíma.
Björgvin Guðmundsson,viðskiptafræðingur
|