Þegar á reyndi þorði ríkisstjórnin ekki að láta þjóðaratkvæðagreiðsluna um fjölmiðlafrumvarpið fara fram. Hún óttaðist að bíða ósigur í þeirri atkvæðagreiðslu.Hún tók því þann kost að draga fjölmiðlalögin til baka og leggja fram nýtt frumvarp um sama efni með örlitlum breytingum!
Stenst þetta stjórnarskrána?
Menn eru ekki á eitt sáttir um það hvort þessi ráðstöfun ríkisstjórnarinnar standist stjórnarskrána. Að sjálfsögðu getur ríkisstjórnin eða alþingi fellt úr gildi lög,sem samþykkt hafa verið. En hvort það stenst,að afturkalla lög eða frumvarp sem er til meðferðar hjá þjóðinni og leggja um leið fram annað frumvarp örlítið breytt er annð mál.Með þessari aðferð er ríkisstjórnin að hafa rangt við. Hún er að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslunni með klækjum. Breytingarnar á fjölmiðlafrumvarpinu eru aðeins til málamynda: Í stað þess að markaðsráðandi fyrirtæki megi eiga 5% í ljósvakafyrirtæki segir nú,að þau megi eiga 10%. Og í stað þess að lögin taki gildi 2006 eiga þau nú að taka gildi 2007. Þetta eru sáralitlar breytingar og mikil spurning hvort þær réttlæti það,að hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrstu viðbrögð almennings við þessari ráðstöfun ríkisstjórnarinnar eru neikvæð. Almenningur virðist sjá í gegnum bellibrögð ríkisstjórnarinnar og það virðist jafnmikil andstaða gegn þessu nýja lagafrumvarpi um fjölmiðla eins og því gamla.Ef svo er þá er jafnmikil gjá milli þings og þjóðar í málinu eins og áður. En það var aðalástæðan fyrir synjun forseta Íslands á staðfestingu fyrra fjölmiðlafrumvarpsins.
Allt gert til þess að bjarga stólunum
Þessi síðasta ráðstöfun ríkisstjórnarinnar er örvæntingartilraun til þess að bjarga ríkisstjórninni frá falli.Ágreiningur var orðinn mikill milli stjórnarflokkanna um hvernig haga ætti þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ljóst var að þingmenn Framsóknar vildu ekki setja eins miklar skorður við atkvæðisrétti kjósenda eins og Sjálfstæðisflokkurinn vildi. Það var farið að hrikta í stjórnarsamstarfinu. Þá datt forsætisráðherra í hug að best væri að draga fjölmiðlafrumvarpið til baka og gera á því málamyndabreytingar.Allt skal gert til þess að stjórnin geti hangið við völd og formaður Framsóknar fengið að sitja um sinn við borðsendann á ríkisstjórnarfundum.
Engin sátt um málið
Ríkisstjórnin lætur sem þetta nýjasta útspil hennar sé gert til sátta. En það er blekking.Ef raunverulegur vilji hefði verið til sátta hefðu fjölmiðlalögin verið dregin til baka án skilyrða. Síðan hefði ríkisstjórnin boðið stjórnarandstöðunni til samstarfs um að semja nýtt fjölmiðlafrumvarp og tekið góðan tíma í það verk,a.m.k. til haust. En ríkisstjórnin sýnir þá ósvífni að leggja fram nýtt frumvarp um leið og það gamla er afturkallað.Með því sýnir hún,að enginn raunverulegur áhugi er á sáttum.
Búast má því við að sami ófriður verði um nýja frumvarpið eins og það gamla.Þjóðin mun hafna nýja frumvarpinu.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 17.júlí 2004 |