Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hefur tilkynnt,að hún mæli með því, að stjórn AGS afgreiði og samþykki þriðju endurskoðun á efnahagsáætlun fyrir Ísland,sem fara á fram í september n.k. Sendifulltrúi AGS á Íslandi sagði, þegar þetta var tilkynnt,að efnahagsáætlunin fyrir Ísland væri að skila árangri. Verðbólga hefði hjaðnað,gengi krónunnar hefði styrkst,viðskiptahalli minnkað,ríkisfjármálin hefðu batnað og umgjörð og eftirlit með fjármálakerfinu verið bætt.Þetta er góður vitnisburður fyrir ríkisstjórnina og leiðir í ljós, að ríkisstjórnin er á réttri braut í aðgerðum til þess að endurreisa efnahagslífið.
Erfiðasta verkefni nokkurrar ríkisstjórnar
Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum vorið 2009 tók hún við erfiðara verkefni en nokkur ríkisstjórn hafði áður tekið við á lýðveldistímanum.Hér höfðu allir bankarnir hrunið og farið í þrot.Samhliða hafði mikið af atvinnufyrirtækjum landsins fallið,lífeyrissjóðirnir höfðu orðið fyrir miklu fjárhagsáfalli og mikill hluti almennings orðið atvinnulaus og mátt sæta stórfelldri lífskjaraskerðingu vegna atvinnuskorts og gengishruns krónunnar, sem stórhækkaði allar innfluttar vörur.Stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar var að endurreisa bankana og fjármálakerfið. Það tókst og með minna fjárframlagi frá ríkinu en reiknað var með í upphafi.Það hefur einnig tekist að lækka verðbólguna verulega. Hún er nú 4,8% en var komin í tæp 20%, þegar mest var.Vextir hafa einnig lækkað mikið og eru nú 6,5% en voru eins og verðbólgan orðnir mjög háir, komnir í 18%. Því er nú spáð,að verðbólgan fari niður í 2,5% um áramótin.Krónan er farin að styrkjast verulega og mun það lækka verð innfluttra vara. Því miður hefur styrking krónunnar enn ekki skilað sér í nægilegri lækkun vöruverðs.Kaupmenn og innflytjendur hafa tekið sér of háa álagningu. Ef styrking krónunnar skilar sér ekki í lægra vöruverði verður samkeppniseftirlitið að taka í taumana. Ríkisstjórnin hefur tekið ríkisfjármálin föstum tökum.Ríkishallinn hefur minnkað verulega. Hallinn nam 215 milljörðum kr árið 2008, skv. ríkisreikningi, en var kominn í 139 milljarða árið 2009. Nýjustu tölur leiða í ljós,að á yfirstandandi ári batnar staðan í rikisfjármálm enn.Fjármálaráðherra upplýsti nýlega, að staðan í ríkisfjármálum væri 34 milljörðum betri nú en áætlanir hefðu sagt fyrir um áður. Það eru góðar fréttir og benda til þess að draga megi úr niðurskurði og sleppa alveg í almannnatryggingum.
Skattaefna ríkisstjórnarinar réttlát
Ríkistjórnin hefur að sjálfsögðu þurft að hækka skatta. En hún hefur gert það á þann hátt að skattar hafa verið hækkaðir mest á þeim sem hafa mestar tekjur en minna eða ekkert á þeim,sem eru með lágar tekjur.Þetta er réttlát skattastefna. Auk þess hefur fjármagnstekjuskattur verið hækkaður.Það er einnig eðlilegt eins og ástandið er í þjóðfélaginu.Að vísu er ég andvígur því, að hár fjármagnstekjuskattur sé lagður á tiltölulega lítið sparifé fólks í banka.Ég tel,að ekki eigi að skattleggja lágan sparnað fólks.Ég tel,að setja mætti frítekjumark við skattlagningu sparifjár,t.d. 10 milljónir,sem fólk gæti átt skattfrjálst í banka.Hins vegar á að skattleggja vel háar innistæður auðmanna.Ég er nokkuð sáttur við skattastefnu ríkisstjórnarinnar. En ég er ósáttur við það hvernig niðurskurði hinn ýmsu ráðuneyta hefur verið háttað.
Skorið niður í velferðarkerfinu
Ríkisstjórnin lofaði því,þegar hún tók við völdum að standa vörð um velferðarkerfið.Við það hefur ekki verið staðið.Í mörgum ráðuneytum hefur ekkert verið skorið niður og útgjöld jafnvel aukin. En í velferðarmálum hefur verið skorið mikið niður, þ.e. í almannatryggingum og í heilbrigðismálum.Þetta eru alger svik við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að standa vörð um velferðarkerfið.Félagsmálaráðherrann virðist ekki gera sér grein fyrir því, að lífeyrir aldraðra og öryrkja er ígildi launa. Hér er um að ræða laun lífeyrisþega.Þegar laun hækka á almennum vinnumarkaði eins og gerst hefur á þessu ári og því síðasta verður einnig að hækka lífeyri lífeyrisþega. Á undanfarandi tæpu 1 1/2 ári hefur kaup launafólks með laun undir 220 þús. á mánuði hækkað um 23 þús. kr. á mánuði eða ca. 16%. Sama er að segja um ríkissstarfsmenn með laun 180 -220 þús. á mánuði.En á sama tíma og þetta hefur gerst hafa laun (lífeyrir) lífeyrisþega,aldraðra og öryrkja, ekki hækkað um eina krónu. Hvernig getur ríkisstjórn,sem vill kenna sig við félagshyggju leyft slíku misrétti að myndast? Ríkisstjórnin verður strax að leiðrétta lífeyri aldraðra og öryrkja ,ef hún vill standa undir nafni. Það verður að hækka lífeyrinn strax um 23000 kr. á mánuði og síðan á hann að fylgja launum á almennum vinnumarkaði. Þessi leiðrétting þolir enga bið.Það verður að leiðrétta lífeyrinn strax.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 23.ágúst 2010