Heilbrigðis-og tryggingaráðuneytið fékk Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að reikna út hvað öryrkjum hefði fjölgað mikið á tilteknu árabili og hvað heildarupphæð örorkulífeyris hefði hækkað mikið á því tímabili.Síðan er haldinn blaðamannafundur og tilkynnt að öryrkjum hafi fjölgað mjög mikið! Maður hefði nú haldið að starfsmenn heilbrigðis-og tryggingaráðuneytsins hefðu getað lagt saman fjölgun öryrkja á umræddu tímabili. Varla hefur þurf að fá aðstoð Háskólans í því efni.Auk þess liggur þetta allt fyrir í ársskýrslum Tryggingastofnunar ríkisins. Þetta er ekkert annað en sjónarspil. Ráðamönnum er mikið í mun að draga fram aukin útgjöld ríkisins vegna fjölgunar öryrkja. Og í þeirri áróðursherferð þykir vænlegt að beita Hagfræðistofnun Háskólans. Tölur um fjölgun öryrkja eiga að vigta eitthvað meira, ef sú stofnun birtir þær en ef Tryggingastofun eða heilbrigðisráðuneyti birtir þær. Síðan rekur Hagfræðistofnun upp mikið óp og segir,að örorkubætur séu mjög háar og hvetji menn til þess að vera frekar á örorkubótum en atvinnuleysisbótum! Fróðlegt væri að bera saman laun forstöðumanns Hagfræðistofnunar og dæmigerðs öryrkja.Ég reikna ekki með aðforstöðumaðurinn mundi vilja skipta og reyna að lifa af launum öryrkjans.
Orsökin:Atvinnuleysi-harka atvinnulífsins
Það komu engin ný sannindi fram í skýrslu Hagfræðistofnunar um fjölgun öryrkja. Garðar Sverrisson,fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins,hefur margoft rætt þessa fjölgun og skýrt orsakir hennar.Hann hefur bent á,að atvinnuleysið og aukin harka atvinnulífsins gegn launafólki sé aðalorsök fjölgunar öryrkja.Atvinnurekendur vilja ekki lengur vinnukraft,sem ekki stendur sig 100%.Þeir launþegar,sem eru fyrir neðan meðallag til vinnu, eru miskunnarlaust reknir.Þeir lenda á atvinnuleysisskrá og brotna niður,þar eð þeir fá ekki vinnu á ný.Það er búið að skapa hér peningagræðgisþjóðfélag,sem ýtir öllum til hliðar,sem ekki standa sig 100%.Áður höfðu atvinnurekendur manneskjuleg sjónarmið við mannaráðningar og mat á starfsfólki.Það er liðin tíð. Þess vegna verða nú margir að öryrkjum,sem áður gátu verið á vinnumarkaðnum. Stjórnvöld hafa skapað þetta ástand. Þau eiga við sig sjálf að sakast í því efni.
Lífeyrir 90 þús kr. á mánuði eftir skatta!
Lífeyrir einhleypra öryrkja er aðeins um 90 þús. kr. á mánuði eftir skatta og rúmlega það hjá þeim sem urðu ungir örykjar.. Það lifir enginn mannsæmandi lífi af því eins og húsnæðiskostnaður er hér nú. Það er út í hött fyrir Hagfræðistofnun Háskólans að kalla þetta háar örorkubætur. Þetta eru smánarlega lágar bætur.Það réttlætir ekki þessar lágu bætur, að atvinnuleysisbætur skuli vera enn lægri.Það þarf að leiðrétta verulega atvinnuleysisbætur.Þær eru til skammar. Það er einnig ósmekklegt að halda því fram,að öryrkjar svindli á kerfinu og fái hærri bætur en þeir eigi rétt á eða fái bætur á röngum forsendum.Það fær enginn örorkulífeyri nema hann fari í læknisskoðun og fái örorkumat hjá tryggingaryfirlækni.Ef menn eru óánægðir með það hvað margir fá örorkulífeyri og telja þá of marga er við tryggingayfirlækni og lækna að sakast en ekki við öryrkja.Einnig geta menn verið óánægðir með reglurnar.Þær eru ekki settar af öryrkjum.Því hefur lengi verið haldið fram,að sumir misnoti tryggingakerfið. Í því sambandi hefur mikið verið rætt um einstæðar mæður,sem sagt er,að haldi bótum sem slíkar eftir að þær eru komnar í sambúð o.s.frv.Það hefur oft verið ráðist á einstæðar mæður á þessum forsendum.Nú er ráðist harkalega á öryrkja með aðstoð Hagfræðistofnunar Háskólans.Það er verið að draga athyglina frá hinni raunverulegu orsök vandans,sem er atvinnuleysið og miskunnarlaus hörkustefna atvinnurekenda gagnvart launþegum.
Vandinn liggur annars staðar
Stjórnvöldum væri nær að afnema sérréttindi ráðherra og æðstu embættismanna,sem eru á margföldum eftirlaunum og geta jafnvel tekið há eftirlaun þó þeir séu á fullum launum í nýjum, störfum.Það er hróplegt ranglæti sem leiðir í ljós stórfellt misrétti. Það eiga að gilda sömu reglur um eftirlaun fyrir alla þegna þjóðfélagsins.
Stjórnarskráin kveður á um jafnrétti. Forsætisráðherra þóttist ætla að leiðrétta efirlaunamálin en fyrrverandi forsætisráðherra stoppaði hann af.Það gleymdist að fá leyfi hjá Davíð!
Í stað þess að ráðast á öryrkja eins og gert er með skýrslu Hagfræðistofnunar ættu stjórnvöld að sjá sóma sinn í því að leiðrétta kjör öryrkja,hækka örorkulífeyri þannig,að öryrkjar gætu lifað sómasamlegu lífi af honum.
Hoggið í sama knérunn og áður
Það er hoggið í sama knérunn og áður. Hæstiréttur hefur tvívegis dæmt,að ríkisstjórnin hafi brotið stjórnarskrána með því að skerða kjör öryrkja.Nú vofir þriðja málið gegn ríkisstjórninni yfir,þar eð ríkisstjórnin sveik samkomulag,sem hún gerði við öryrkja fyrir síðustu þingkosningar um að bæta kjör ungra öryrkja um ákveðna fjárhæð. Eftir það,sem á undan er gengið, hefði mátt búast við,að ríkisstjórnin tæki upp jákvæðari afstöðu til öryrkja.En svo virðist ekki vera.Skýrsla heilbrigðisráðuneytisins um málefni öryrkja leiðir í ljós,að ríkisstjórnin er við sama heygarðhornið og áður í málefnum öryrkja.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 26.mai 2005