Miklar umræður hafa orðið undanfarið um breytingarnar á eignarhaldi í Eimskipafélagi Íslands,í Sjóvá- Almennum og fleiri stórum fyrirtækjum. Landsbankinn hefur eignast stóran hlut í Eimskip og SH og Íslandsbanki hefur eignast meirihlutann í Sjóvá-Almennum,stóran hlut í Flugleiðum gegnum Straum og Kaupþing Búnaðarbanki hefur eignast stóran hlut í SÍF. Gagnrýnt hefur verið, að bankarnir væru að hasla sér völl í óskyldum atvinnurekstri. með kaupum á ráðandi hlutum í slíkum fyrirtækjum. Forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hafa sagt,að ekki væri æskilegt að bankarnir væru að kaupa stóra hluti í óskyldum fyrirtækjum nema þá til skamms tíma.Viðskiptaráðherra segir,að bönkunum sé ekki heimilt að eiga í atvinnufyrirtækjum til langs tíma með áhrif í huga. Það sé ekki hlutverk þeirra.Morgunblaðið hefur einnig gagnrýnt kaup bankanna á miklu hlutafé í óskyldum fyrirtækjum.
GETUR VALDIÐ HAGSMUNAÁREKSTRUM
Það hefur komið fyrir,að bankarnir hafi keypt hlutabréf í fyrirtækjum undanfarin misseri. En það hefur ekki gerst fyrr,að það væri í eins ríkum mæli og nú.Það er því rétt að staldra við og spyrja hvort það sé rétt stefna,að bankarnir hasli sér völl í atvinnufyrirtækjum í landinu í svo ríkum mæli,að bankarnir beinlínis taki fyrirtækin yfir og reki þau.Þeirri spurningu verður að svara neitandi.Það er einungis réttlætanlegt,að bankarnir kaupi ráðandi hlutí í óskyldum fyrirtækjum,ef það er til skamms tíma og vegna einhvers konar björgunaraðgerða,þ.e. ef fyrirtækin eru mjög illa stödd fjárhagslega og bankarnir vilja hjálpa þeim yfir erfiðasta hjallann og koma þeim á frían sjó á ný.Hafa verður í huga,að það getur valdið margvíslegum hagsmunaárekstrum,ef stórir bankar hasla sér völl í óskyldum atvinnurekstri. Bankarnir geta verið með marvíslegar trúnaðarupplýsingar um keppinauta þeirra fyrirtækja,sem bankarnir eignast. Enda þótt ganga verði út frá því,að bankarnir virði trúnað við viðskiptavini sína getur slík aðstaða valdið tortryggni og jafnvel trúnaðarbresti.
HLUTVERKIÐ ER AÐ REKA BANKAVIÐSKIPTI
Lögum samkvæmt er hlutverk bankanna að reka hvers konar bankaviðskipti.Það er ekki hlutverk bankanna að vera kjölfestufjárfestar í fyrirtækjum. Ekki hefur þó verið amast við því þó bankar hafi eignast hluti í fyrirtækjum,ef það hefur verið gert til þess að tryggja hagsmuni bankanna,t.d. þegar hætta hefur verið á því að bankarnir töpuðu fé,sem þeir hefðu lánað viðkomandi fyrirtækjum og fyrirtækin hefðu ella verið að stöðvast vegna fjárhagserfiðleika.Slíkar björgunaraðgerðir eiga þó ávallt að vera til mjög skamms tíma.Kaup bankanna á hlutabréfum í Sjóvá-Almennum, Eimskip, SH og SÍF eru annars eðlis. Ekki er þörf neinna björgunarðgerða fyrir þessi fyrirtæki.Sjóvá- Almennar gengur t.d. mjög vel og skilar miklum hagnaði. Ekki er heldur þörf björgunaraðgerða fyrir Eimskip. Rekstur félagsins hefur að vísu verið í járnum undanfarið en ekki verður þó séð að Landsbankinn hafi þurft að koma að rekstri þess félags til þess að bæta rekstur þess.SH og SÍF eru heldur ekki í neinum erfiðleikum. Hér hljóta því önnur sjónarmið að hafa ráðið för.
Það eru gerðar meiri kröfur til bankanna en annarra fyrirtækja í landinu. Bönkunum er trúað fyrir sparifé landsmanna. Það er mikilvægt að þeir fari vel með það fé. Bankarnir mega ekki misnota aðstöðu sína, sem sterkar og mikilvægar fjármálastofnanir. Þeir mega ekki glata trausti viðskiptavina sinna.Bankarnir eiga allt undir því að halda því trausti.Það hvílir mikil ábyrgð á þessum mikilvægustu fjármálastofnunum þjóðarinnar. Verksvið bankanna er skýrt. Þeir verða að gæta þess að fara ekki út fyrir sitt svið.
Björgvin Guðmundsson,viðskiptafræðingur
Birt í Morgunblaðinu 2003
|