Það er þung undiralda í þjóðfélaginu.Almenningur er óánægður,margir eru reiðir.Menn hafa tapað miklu í bönkunum við fall þeirra og lífskjörin versna dag frá degi. Kaupmáttur hefur minnkað um rúm 6% og heldur áfram að minnka.Verðlag í verslunum hefur stórhækkað og vextir og afborganir af lánum hafa skrúfast upp,bæði á verðtryggðum lánum og mynkörfulánum.Það er í þessu andrúmslofti,sem almenningur kemur saman á Austurvelli á hverjum laugardegi og mótmælir.Almenningur mótmælir falli bankanna og fjármálakreppunni. Almenningur krefst þess,að þeir,sem bera ábyrgðina, axli ábyrgð,stjórnmálamenn og þær eftirlirsstofanir,sem áttu að fylgjast með bönkunum.Mótmælafundirnir á Austurvelli hafa krafist afsagnar yfirstjórnar Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og krafist hefur verið kosninga.
Stjórnarsáttmálinn er úreltur
Áður en Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að flýta landsfundi sínum og halda hann ´
i lok janúar setti Samfylkingin fram þær óskir, að stjórnarsáttmálinn yrði endurskoðaður.Bæði formaður flokksins og Jóhanna Sigurðardóttir lýstu því yfir opinberlega að endurskoða þyrfti stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar eð hann væri orðinn úreltur. Svo mikið hefði breyst vegna bankahrunsins og fjármálakreppunnar. Samfylkingin hefur hert baráttu sína fyrir aðild að Evrópusambandinu og telur,að bankahrunið hafi sýnt okkur, að krónan dugar ekki lengur.Samfylkingin vill sækja um aðild að ESB og taka upp evru.Enda þótt menn geri sér ljóst,að umsókn um ESB nú leysir ekki aðsteðjandi efnahagsvanda þá telja menn ei að síður að slíkt skref mundi hafa jákvæð áhrif og auka tiltrú erlendra aðila á Íslandi.Finnar hafa nýlega sagt, að Ísland gæti fengið aðild að ESB á 1/2- 1 1/2 ári .Það er mikið skemmrri tími en áður hefur verið rætt um. Í nýjum stjórnarsáttmála yrði sjálfsagt fjallað með öðrum hætti en áður um Ísland og ESB en auk þess þyrfti að breyta öðrum ákvæðum sáttmálans vegna breyttra aðstæðna.Nauðsynlegt er að skýrt komi fram í nýjum stjórnarsáttmála að ríkisstjórnin vilji standa vörð um lífskjör láglaunafólks,aldraðra og öryrkja. Það þarf að bæta kjör aldraðra og öryrkja þrátt fyrir eriftt ástand og taka það skýrar fram en í núverandi stjórnarsáttmála.
Samþykkir Sjálfstæðisflokkurinn aðild að ESB?
Menn bíða spenntir eftir landsfundi Sjálfstæðisflokksins og sérstaklega eftir því hvað fundurinn ákveður um ESB.Mun Sjálfstæðisflokkurinn samþykkja að sækja um aðild að sambandinu eða ekki. Ummæli Geirs formanns og Þorgerðar Katrínar,varaformanns, í þætti RUV Í vikulokin, benda til þess að þau muni mæla með því að sótt verði um aðild að ESB. Það yrðu stórtíðindi. Líklegt er,að það mundii styrkja stjórnarsamstarfið, ef Sjállstæðisflokkurinn samþykkti að sækja um aðild að ESB. En ekki er það öruggt. Það verður einnig að tryggja að stjórnin gæti hagsmuna láglaunafólks og aldraðra og persónulega tel ég að taka verði einnig upp kvótamálið. Það er ekki unnt að íta því á undan sér lengur.
Spurningin um kosningar eða ekki kosningar getur einnig haft úrslitaáhrif.Krafa almennings er: Kosningar. Menn vilja kjósa til þess að ríkisstjórn og alþingismenn axli ábyrgð af bankahruninu og kreppunni.Það er ekki nóg, að stjórn Seðlabanka og FME víki. Stjónmálamenn verða einnig að axla ábyrgð.Forseti ASÍ hefur sett fram þá kröfu,að viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra víki úr stjórninni vegna hruns bankanna.Sjálfsagt setur hann fram .þessa kröfu vegna þess, að hann vill síður að stjórnin í heild víki.Þess vegna vill hann,að þeir ráðherrar,sem haft hafa með bankamál og fjármál að gera axli ábyrgð. Ég hallast fremur að kosningum, þar eð þá má segja,að stjórnin í heild axli ábyrgð og leggi mál sín í dóm þjóðarinnar.Á því er nauðsyn.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Mbl. í desember 2008
|