Um síðustu áramót voru uppi háværar raddir um það í stjórnarflokkunum að setja þyrfti lög um hringamyndanir í íslensku viðskiptalífi. Morgunblaðið tók undir þessi sjónarmið.Í grein,er ég skrifaði um mál þetta í Morgunblaðið, komst ég að þeirri niðurstöðu,að engin þörf væri á sérstökum lögum um hringamyndanir. Núgildandi lög um samkeppnishömlur nægðu í því efni. Ef til vill þyrfti að skerpa á þeim og efla Samkeppnisstofnun. Nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði hefur komist að sömu niðurstöðu. Hún telur ekki þörf á sérstökum lögum um hringamyndanir en vill skerpa á núgildandi lögum.
Nægar heimildir fyrir hendi
Sannleikurinn er sá,að nægar heimildir eru í núgildandi samkeppnislögum til þess að fylgjast með samkeppnishömlum og grípa til aðgerða, ef viðskiptaaðilar reynast sekir um skaðlegar samkeppnishömlur. Hins vegar hefur Samkeppnisstofnun verið of veik og stjórnvöld hafa vanrækt að efla hana.Stjórnvöld hafa ekki haft nægan áhuga á því að hafa virkt eftirlit með viðskiptalífinu. Gott dæmi um þetta eru olíufélögin. Samkeppnisstofnun hefur komist að því, að olíufélögin höfðu með sér ólögmætt verðsamráð. Neytendur hafa sjálfsagt orðið fyrir miklum skaða af þeim sökum. En málið hefur tekið mörg ár og því er ekki lokið enn.Stjórnvöld hafa ekki sýnt neinn áhuga á því að málinu gegn olíufélögunum væri lokið og þau látin svara til saka.Það hefur ekki vantað lagaheimildir. Það hefur vantað áhuga á að ljúka málinu gegn oliufélögunum. Það skiptir engu hversu mörg nefndarálit eru samin um nauðsyn aðgerða í þessum málum,ef málum er ekki fylgt eftir og lagaheimildir nýttar.
Hæpið að skipta fyrirtækjum
Eitt af því sem nefnd viðskiptaráðherra gerir tillögu um er að breyta megi skipulagi fyrirtækja ef þau misnota markaðsfrelsið.Ég tel mjög hæpið að fara út á þá braut Það gæti skaðað fyrirtækin mikið.Eðlilegra væri að setja slík fyrirtæki undir verðlagseftirlit og verðlagsákvæði.Ef fyrirtæki misnotar markaðsfrelsið mætti setja vörur þess í ákveðinn tíma undir verðlagsákvæði,þ.e. slíkt fyrirtæki yrði að sækja um til Samkeppnisstofnunar á hvaða verði fyrirtækið mætti selja vörur sínar.Ég hygg,að ef markaðsráðandi fyrirtæki hefðu slík ákvæði hangandi yfir sér mundu þau ekki misnota aðstöðu sína.
Ný ríkisstofnun leysir ekki vandann
Önnur tillaga nefndar viðskiptaráðherra er sú,að skipta Samkeppnisstofnun í tvær stofnanir: Stofnun er hefði með samkeppnismál að gera og stofnun,sem hefði með óréttmæta viðskiptahætti og neytendamál að gera.Ekki verður séð að slík skipting leysi neinn vanda. Samkeppnisstofnun getur að sjálfsögðu skipt sér í tvær deildir. Það leysir engan vanda að stofna nýja ríkisstofnun og bæta við nýjum forstjóra. Það eykur aðeins kostnað. Það eina sem þarf að gera er að efla Samkeppnisstofnun myndarlega.Ef ríkisstjórnin getur hugsað sér að stofna nýja ríkisstofnun til þess að fjalla um þessi mál getur hún alveg eins stóreflt Samkeppnisstofnun svo hún geti sinnt samkeppnismálum og eftirliti betur en nú.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 2.oktober 2004
|