R-listinn verði áfram í Reykjavík
Nokkur ágreiningur mun vera innan R-listans um framboð í næstu borgarstjórnarkosningum.Deilt er um hvernig haga eigi vali frambjóðenda á listann.Samfylkingin vill hafa sameiginlegt prófkjör um val frambjóðenda og láta það ráðast í því prófkjöri hve marga fulltrúa hver flokkur fær á listann. Vinstri grænir vilja hafa sitt eigið prófkjör eða forval um val á fulltrúum Vinstri grænna á listann.Nokkur ágreiningur er um það hve marga fulltrúa hver flokkur á að fá á R-listann.Ég tel,að unnt sé að leysa þessi ágreiningsefni með góðum vilja.Að sjálfsögðu er ekki unnt að meina neinum flokki að velja sína eigin fulltrúa á listann. Ekki er unnt að þröngja sameiginlegu prófkjöri upp á flokkana, ef þeir vilja það ekki.Þar er því ekki um stórvægilegt ágreiningsefni að ræða.Hlutföll flokkanna á R-listanum á heldur ekki að vera erfiðara úrlausnarefni nú en áður.Enda þótt styrkur Samfylkingarinnar hafi aukist frá síðustu kosningum, miðað við skoðanakannanir, á að vera unnt að leysa þetta mál einnig.Val á borgarstjóraefni er einnig annað úrlausnarefni. Hugsanlegt væri að láta fara fram prófkjör um val á borgarstjóraefni R-listans fyrir kosningar.Frambjóðendur í slíku prófkjöri ættu að vera borgarfulltrúar og sá flokkur,sem fengi borgarstjóraefnið, gæti slakað á kröfum sínum varðandi tölu öruggra fulltrúa á framboðslistanum. Þessi leið gæti ef til vill auðveldað val á fulltrúum flokkanna og skapað frið um hlutföllin milli þeirra.
Ágreiningur hjá Framsókn
Gestur Gestsson formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur norður lét þau orð falla í vetur að leysa ætti upp R-listann og að Framsóknarflokkurinn ætti að bjóða fram sjálfstætt í næstu kosningum. Sagði hann jafnframt að skipta ætti út öllum frambjóðendum til borgarstjórnar og hleypa nýju fólki að. Hér mun hann fyrst og fremst hafa átt við borgarfulltrúa Framsóknar,Alfreð Þorsteinsson og Önnu Kristinsdóttur. Hér er um innanflokksátök að ræða hjá Framsókn í Reykjavík.En Alfreð Þorsteinsson vill halda R-listasamstarfinu áfram og ég hygg að hans skoðun verði ofan á.
Enginn málefnaágreiningur
Aðalatriðið er,að það er enginn málefnaágreiningur milli flokkanna,sem standa að R-listanum.Flokkunum hefur gengið vel að starfa saman og stjórn borgarinnar hefur tekist vel hjá R-listanum.Það er því eðlilegt og sjálfsagt að halda R-listasamstarfinu áfram.Ef flokkarnir bjóða fram hver fyrir sig er einnig mikil hætta á því,að Sjálfstæðisflokkurinn nái meirihluta í borginni á ný. Það er engin ástæða til þess að færa Sjálfstæðisflokknum völdin í Reykjavík á ný vegna smávægilegs ágreinings um röðun á framboðslista,þegar málefnaágreiningur er enginn.
Félagshyggjuflokkarnir,sem standa að R-listanum hafa sýnt það,að þeir geta starfað vel saman. Þeir hafa unnið vel að ýmsum félagslegum umbótum og einnig staðið sig vel í atvinnumálum borgarinnar svo sem framtak Orkuveitunnar í atvinnumálum leiðir í ljós. Framsóknarmenn í borgarstjórn hafa sýnt það,að þeir eru félagshyggjumenn enda þótt ráðherrar flokksins hafi fyrir löngu yfirgefið þá stefnu.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 13.júlí 2005