Jón Sigurðsson, nýr formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi stuðning Íslands við innrásina í Írak á nýafstöðnum miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Sagði Jón, að um mistök hefði verið að ræða. Ummæli Jóns vöktu mikla athygli og hafa þau verið túlkuð sem gagnrýni á Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson en þeir tvímenningar tóku ákvörðunina um að styðja innrásina í Írak.
Brot á alþjóðalögum og brot á íslenskum lögum
Mál þetta var rætt á alþingi.. Ögmundur Jónasson tók málið upp þar. En Jón Sigurðsson stóð ekki lengi við stóru orðin: Nú dró hann verulega í land og sagði, að ákvörðun Halldórs og Davíðs hefði verið lögmæt! Þessi ummmæli Jóns eru furðuleg með tilliti til þess, að það er margoft búið að sýna fram á , að innrásin í Írak og stuðningur Íslands við hana var brot á lögum.
Naut ekki stuðnings Öryggisráðsins
Innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak naut ekki stuðnings Öryggisráðs Sþ.og var því brot á alþjóðalögum. Ákvörðun þeirra tvímenninga, Halldórs og Davíðs, var hvorki lögð fyrir utanríkismálanefnd alþingis né ríkisstjórn og var því kolólögleg. Lögum samkvæmt á að leggja öll mikilvæg stjórnarmálefni fyrir ríkisstjórn og samkvæmt lögum og reglum á að leggja öll mikilvæg utanríkismálefni fyrir utanríkismálanefnd alþingis. Það var ekki gert. Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem er einn færasti lögmaður landsins, kom á fund utanríkismálanefndar alþingis til þess að fjalla um innrásina í Írak og ákvörðunina um stuðning Íslands við hana. Hann sagði, að innrásin í Írak hefði verið brot á alþjóðalögum og ákvörðunin um stuðning Íslands við innrásina hefði verið ólögmæt.
Gagnýni Jóns fagnað
Þegar Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hóf að gagnrýna innrásina í Írak og stuðning Íslands við hana á miðstjórnarfundi Framsóknar brutust út mikil fagnaðarlæti á fundinum.Það var eins og flokksmenn hefðu beðið lengi eftir tækifæri til þess að láta í ljós óánægju með ákvörðun Davíðs og Halldórs um stuðning við Íraksstríðið. Það er ekkert skrítið. Margir Framsóknarmenn hafa gert sér það ljóst fyrir löngu, að stuðningur tvímenninganna við Íraksstríðið er það mál, sem hefur farið einna verst með Framsóknarflokkinn á undanförnum árum.En aðeins einn af þingmönnum Framsóknarflokksins hafði kjark til þess að segja upphátt það, sem margir aðrir Framsóknarmenn hugsuðu. Það var Kristinn H. Gunnarsason. Og fyrir það var honum refsað..
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 18.desember 2006