Miklar umræður hafa átt sér stað að undanförnu vegna þeirra ummæla Björns Bjarnasonar,dómsmálaráðherra,að jafnréttislögin væru úrelt.Þau væru barn síns tíma!. Lögin voru síðast endurskoðuð árið 2000.Ráðherrann viðhafði þessi ummæli vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála en kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu,að Björn Bjarnason hefði brotið jafnréttislögin við skipan Ólafs Barkar í embætti hæstaréttardómara. Hjördís Hákonardóttir,sem einnig sótti um embættið,hefði verið hæfari en Ólafur Börkur.
Björn Bjarnason hefur greipið til þess ráðs eftir að hann beið lægri hlut hjá kærunefnd jafnréttismála,að halda því fram að jafnréttislögin væru úrelt. Þykir það furðulegt,að sjálfur dómsmálaráðherra landsins gefi þannig til kynna,að hann þurfi ekki að fara eftir gildandi landslögum! Að sjálfsögðu verður dómsmálaráðherra eins og aðrir að virða landslög.
Braut Björn einnig stjórnsýslulög?
Bent hefur verið á,að Björn Bjarnason hafi ekki aðeins brotið jafnréttislögin við skipan Ólafs Barkar í embætti hæstaréttardómara heldur hafi hann einnig brotið stjórnsýslulög.Hæstiréttur taldi alla umsækjendur um embætti hæstaréttardómara hæfa en taldi tvo þeirra heppilegasta,þ.e. þá Eirík Tómasson og Ragnar Hall. Telja margir,að samkvæmt stjórnsýslulögum hefði Björn Bjarnason því fremur átt að skipa annan hvorn þessara tveggja í embættið. En vegna jafnréttislaga átti Björn að skipa Hjördísi Hákonardóttur. Hún er af kærunefnd jafnréttismála talin hæfari en Ólafur Börkur.
Björn hundsar lögin.
Björn Bjarnasson hundsar bæði stjórnsýslulög og jafnréttislög í þessu máli. Hann segir,að hann sjálfur hafi aðra skoðun á þessu máli en kærunefnd jafnréttismála og hans skoðun gildi. Hann fari með veitingavaldið.Hann þurfi síðan aðeins að standa kjósendum reikningsskil gerða sinna! Þetta er undarlegt sjónarmið. En miðað við það geta ráðherrar hundsað lög í landinu. Það stenst að sjálfsögðu ekki. Lögin taka til þeirra eins og annarra.
Björgvin Guðmundsson
"Björn Bjarnason hundsar bæði stjórnsýslulög og jafnréttislög í þessu máli."
|