Á kosningadaginn kvað Kjaradómur upp úrskurð um laun æðstu embættismanna ríkisins. Samkvæmt honum hækka umrædd laun um allt að 19,3% %,þannig að laun forsætisráðherra hækka um rúmar 140 þús. kr. á mánuði og laun annarra ráðherra um 122 þús kr.á mánuði.Þetta gerist á sama tíma og rætt er hvort þjóðarbúið þoli,að aldraðir og öryrkjar fái nokkur þúsund kr. í hækkun á mánuði.ASÍ hefur þegar mótmælt úrskurði Kjaradóms og telur,að hann geti torveldað gerð næstu kjarasamninga.
Í kosningabaráttunni vegna nýafstaðinna þingkosninga var nokkuð rætt um kjör aldraðra og öryrkja. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar sögðu ítrekað,að kjör þessara hópa hefðu verið bætt verulega í tíð ríkisstjórnarinnar. Kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hefði aukist. Var á þessum talsmönnum að skilja,að kjör aldraðra og öryrkja væru viðununandi. Ítrekað var vitnað í það,að ríkisstjórnin hefði gert samkomulag við samtök aldraðra og öryrkja um kjarabætur þeim til handa og gefið í skyn,að allt væri komið í lag! M.a. sögðu fulltrúar ríkisstjórnarinnar,að skattar á þessum láglaunahópum hefðu lækkað.Af þessum sökum sá Félag eldri borgara ástæðu til þess að birta yfirlýsingu 3.mai sl. þar sem það sýndi fram á það með rökum og staðreyndum,að skattar á öldruðum hefðu hækkað í tíð ríkisstjórnarinnar.
En hver er sannleikurinn um kaupmátt bóta lífeyrisþega á undanförnum árum? Hver er sannleikurinn um bætt kjör lífeyrisþega,sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar varð tíðrætt um í kosningabaráttunni? Sannleikurinn er þessi: ( Byggt á upplýsingum Félags eldri borgara)
Sl. 13 ár hefur kaupmáttur lífeyris aldraðra hækkað um 10,6% á sama tíma og kaupmáttur lágmarkslauna hefur hækkað um yfir 40%. Þegar tekjuskattur hefur verið dreginn frá stendur eftir 0,7% kaupmáttaraukning eða 613 kr. á mánuði. Þetta er sú kjarabót aldraðra,sem ríkisstjórninni varð svo tíðrætt um í kosningabaráttunni. Aldraðir fá þessar 613 kr. á mánuði í kjarabót á meðan ráðherrarnir fá nú skv. úrskurði Kjaradóms á annað hundrað þús. kr. í kauphækkun á mánuði! Þannig er réttlætið. En var þetta ranglæti ekki lagfært með samkomulagi ríkisstjórnar og Félags eldri borgara í nóvember sl. ? Lítum á það: Samkvæmt samkomulaginu var ellilífeyrir hækkaður um 640 kr. á mánuði. Já,mikill er rausnarskapur ríkisstjórnarinnar.Tekjutrygging einstaklinga var hækkuð um 3028 kr. á mánuði á þessu ári og skyldi hækka um 2000 kr. á mánuði 1.jan. n.k. Auk þess var nokkur hækkun á tekjutryggingarauka en aðeins fáir njóta hans.Skerðingarhlutfall vegna tekjutryggingarauka var lækkað úr 67% í 45%.
Það er mikið búið að dásama þetta samkomulag. Og fulltrúar ríkisstjórnarinnar notuðu það óspart í kosningabaráttunni, að gert hefði verið samkomulag við eldri borgara um bætt kjör þeirra. Það var engu líkara en allt væri komið í lag varðandi kjör aldraðra. En þegar litið er á framangreindar tölur sést,að hér var um skammarlega litlar hækkanir að ræða. Undrar það mig mjög,að Félag eldri borgara skyldi semja um svo litlar hækkanir: 640 kr. hækkun á ellilífeyri á mánuði og 3028 kr. hækkun á tekjutryggingu á mánuði á þessu ári.Þetta eru smánarbætur og síðan er tekinn skattur af þessu.
Vonandi tekur ríkisstjórnin sig á og gerir betur við aldraða og öryrkja. Ef hún tekur eitthvað mark á kjósendum ber henni að gera myndarlegt átak í kjarabótum fyrir þessa hópa. Allir stjórnmálaflokkar lögðu áherslu á nauðsyn þess að bæta verulega kjör aldraðra,öryrkja og atvinnulausra. Í þeim málum var alger samstaða í kosingabaráttunni.
Björgvin Guðmundsson
viðskiptafræðingur
Birt í Mbl. 2003 |