Valgerður Sverrisdóttir,iðnaðar-og viðskiptaráðherra hefur hreyft þeirri hugmynd,að Ísland gangi í Myntbandalag Evrópu og taki upp evru án aðildar að Evrópusambandinu (ESB).Það gengur ekki. Þessi hugmynd Valgerðar byggist á misskilningi. Það er ekki unnt að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Það hefur verið reynt en ekki gengið.
Noregur fékk synjun
Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, lét á þetta reyna fyrir nokkrum árum, þegar hann var forsætisráðherra Noregs.Hann fór þá til Brussel og ræddi við ráðamenn ESB um þá ósk Noregs að taka upp evru án þess að ganga í ESB. En hann fékk þvert nei hjá Evrópusambandinu. Honum var tjáð,að Noregur gæti ekki fengið að taka upp evru án aðildar að Evrópusambandinu. Með því,að Noregi hefur verið neitað um að taka upp evru án ESB aðildar fengi Ísland það ekki fremur. Noregur er ríkara land en Ísland, er með mikinn olíugróða,sterkt efnahagslíf og traustan gjaldmiðil en samt var erindi Noregs synjað hjá ESB.
Það er virðingarvert hjá Valgerði að leiða hugann að nauðsyn þess að taka upp evru hér á landi, þar eð krónan er farin að skaða íslensk útflutningsfyrirtæki og engin framtíð er í því fyrir Ísland að halda í krónuna.En tillaga um evru er í rauninni óbein tillaga um aðild að ESB.
Björgvin Guðmundsson |