Á nýafstöðnu viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands var eitt aðalmálið einkarekstur í heilbrigðiskerfinu.Töldu málsvarar Verslunarráðs að spara mætti mikið með því að taka upp einkarekstur.
KERFIÐ Í ÞÝSKALANDI GOTT
Nýkjörinn formaður Verslunarráðs,Jón Karl Ólafsson,útskýrði hugmyndir Verslunarráðs í þessu efni í viðtali á Útvarpi Sögu.Sagði hann m.a. frá heilbrigðiskerfinu í Þýskalandi en þar hefur hann dvalist lengi. Dásamaði hann mjög hve góð aðstaðan væri á spítölunum hjá efnafólki í Þýskalandi. Þeir sem hefðu keypt sér dýrar tryggingar fengju luxusaðstöðu á spítölunum. Þeir fengju nokkurs konar “svítu”.Einnig hefðu þeir forgang í biðröðinni. Hér er komin fyrirmyndin að því,sem einkarekstursmenn stefna að í heilbrigðismálum hér: Forgangur fyrir þá efnameiri: A og B sjúklingar. Þeir efnameiri skulu hafa forgang og fá betri aðstöðu en aðrir.
VILJUM EKKI SLÍKT KERFI
Við Íslendingar viljum ekki slíkt kerfi. Við viljum ekki að þeir efnameiri hafi forgang í heilbrigðiskerfinu. Við viljum að allir sitji við sama borð. Oftast segja talsmenn einkareksturs í heilbrigðiskerfinu,að ekki sé meiningin að mismuna eftir efnahag. En það segja þeir aðeins á meðan þeir eru að koma breytingunni á. Að sjálfsögðu mundi einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þýða, að tekin yrðu upp sjúklingagjöld í auknum mæli ella yrði fjárhagslegur ávinningur lítill.Menn nefna gjarnan í þessu sambandi “ litlar” upphæðir fyrir aðgerðir,t.d. 18000 kr. En menn athuga ekki að þeir sem aðeins hafa 100 þús kr. á mánuði hafa ekki efni á því að greiða 18000 kr. fyrir aðgerð. Jafnaðarmenn þurfa að vera vel á verði í þessum efnum.
Björgvin Guðmundsson
"Við Íslendingar viljum ekki slíkt kerfi. Við viljum ekki,að þeir efnameiri hafi forgang í heilbrigðiskerfinu.Við viljum,að allir sitji við sama borð."
"Jafnaðarmenn þurfa að vera vel á verði í þessum efnum".
|