Framsóknarflokkurinn fórnar einum ráðherra 15.september n.k. Það er gjaldið,sem flokkurinn verður að greiða fyrir að fá fundarstjóra ríkisstjórnarinnar. Í rauninni er gjaldið þó enn hærra því Framsókn verður að fórna tveimur ráðuneytum,utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti og fær aðeins í staðinn Hagstofuna,sem er sjálfstæð stofnun. Utanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið eru mikilvæg og valdamikil ráðuneyti en fundarstjóri ríkisstjórnar ( forsætisráðherra ) er nánast valdalaus nema hann hafi eitthvert fagráðuneyti undir sinni stjórn.
Staða Framsóknar mjög veik
Ríkisstjórnin er fjölskipað stjórnvald. Það vill segja,að hver ráðherra ræður sínum málaflokki.Ráðherrar kynna sín mál á fundum ríkisstjórnar en þeir þurfa ekki að taka við neinum fyrirmælum frá ríkisstjórnarfundum.Forsætisráðherra hefur ekkert vald yfir fagráðherrum.Völd og áhrif Davíðs Oddsonar hafa byggst á því,að hann hefur verið formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins.Sem slíkur hefur hann getað beitt áhrifum sínum gagnvart öðrum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.
Staða formanns Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni verður allt önnur en formanns Sjálfstæðisflokksins.Hún verður mjög veik. Framsókn er mjög veikur aðili í stjórnarsamstarfinu.Og fylgi Framsóknar fer minnkandi. Flokkurinn mælist nú aðeins með 7,5% fylgi.Framsókn er í ríkisstjórn algerlega undir náð og miskunn Sjálfstæðisflokksins komin.
Umbun fyrir dygga þjónustu við íhaldið
Það er heiður og viðurkenning fyrir stjórnmálaleiðtoga að fá umboð frá forseta Íslands til þess að mynda ríkisstjórn. En það er lítill heiður að fá slíkt umboð frá öðrum stjórnmálaleiðtoga sem umbun fyrir dygga þjónustu í stjórnarsamstarfi áður.En þannig er því varið með Framsókn.Sjálfstæðisflokkurinn er að launa Framsókn dygga þjónustu undanfarandi 8-9 ár með því að samþykkja að Framsókn fái fundarstjóra ríkisstjórnar hluta kjörtímabilsins.
Dýrkeyptur hégómi
Það er undarlegt,að Framsókn skuli leggja svo mikla áherslu á það,að fá fundarstjóra ríkisstjórnar. Þetta er dýrkeyptur hégómi. Þetta er aðallega táknrænt.Fundastjórinn mætir hér og þar við hátíðlegar athafnir og í veislum en völd hans eru lítil sem engin.Það hefði verið mun mikilvægara fyrir Framsóknarflokkinn að halda utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti að ekki sé nú talað um þá fórn flokksins að þurfa að láta mann fyrir borð,þ.e. að missa einn ráðherra.
Stjórnarflokkarnir töpuðu fylgi
Ef allt hefði verið með felldu hefðu stjórnarflokkarnir átt að fara frá völdum eftir síðustu kosningar. Þeir töpuðu báðir fylgi,Sjálfstæðisflokkurinn þó mun meira eða úr rúml. 40% í 33%. En Framsókn hafði tapað miklu fylgi í kosningunum 1999,fór þá úr 23,3% í 18,4% og tap flokksins hélt áfram nú.Flokkurinn tapaði tæplega einu prósentustigi í kosningunum í fyrra. En flokkarnir vildu ekki una úrslitum kosninganna. Þeir vildu hanga áfram við völd þrátt fyrir dóm kjósenda. Þess vegna beitti Sjálfstæðisflokkurinn fyrir Framsókn,og bauð fundarstjóra ríkisstjórnar,forsætisráðherra, aðeins ef Framsókn vildi styðja áframhaldandi stjórnarsetu. Og Framsókn beit á agnið.Hún stóðst ekki freistinguna.Það skipti flokkinn engu þó fórna þyrfti einum ráðherra og tveimur ráðuneytum! Hégóminn varð yfirsterkari.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 1.september 2004
|