Frumvarp forsætisráðherra um eignarhald á fjölmiðlum var samþykkt sem lög frá Alþingi í dag. Þar með hefur ríkisstjórnin samþykkt lög um skerðingu prentfrelsis á Íslandi. Það er því ekki lengur frjáls “pressa” á Íslandi eins og í löndum hins vestræna heims. Ástandið hér er fremur orðið líkara því sem var í Sovetríkjunum gömlu.
Það hefur verið aðalsmerki Íslands,að hér hefur ríkt fullt tjáningarfrelsi og fullt einstaklingsfrelsi. Prentfrelsi hefur verið hér algert. Hver, sem er, hefur mátt gefa út blað. Nú er því tímabili lokið. Sá,sem á ljósvakamiðil má ekki gefa út blað. Útvarp Saga má ekki gefa út blað og heldur ekki Skjár 1.Og að sjálfsögðu ekki Stöð 2 eða Norðurljós.
Stefnt gegn einu fyrirtæki
Þetta eru furðuleg lög. Eins og margoft hefur komið fram er þessum lögum stefnt gegn einu fyrirtæki,Norðurljósum. Það að setja lög gegn einu fyrirtæki er einnig brot á jafnræðisreglu og því sennilega brot á stjórnarskránni.
Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins upplýsti um síðustu helgi í viðtali við Bylgjuna,að Sjálfstæðisflokkurinn hefði talið,að Baugur væri orðinn of sterkur og ef ekki yrðu sett lög á hann yrði ekki neitt við ráðið. Þetta sagði Pétur,að hefði verið rætt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sl. vetur.Er hér komin alger staðfesting á því,að lögunum um fjölmiðlana var stefnt gegn einu fyrirtæki.
Til skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Mál þetta verður Sjálfstæðisflokknum til ævarandi skammar.Flokkurinn sem alltaf hefur kennt sig við frelsi lögleiðir hér höft og frelsistakmörkun einungis vegna þess að forustu flokksins líkar ekki við eigendur Baugs.Slíkt er fáheyrt. Forustumenn í stjórnmálum geta ekki látið afstöðu sína til einstakra manna ráða lagasetningu í mikilvægum málum.
Þingmenn múlbundnir
Það,sem hefur þó vakið enn meiri furðu,er það,að ekki einn einasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa haft sjálfstæða skoðun á fjölmiðlafrumvarpinu. Svo virðist sem einn maður hafi hugsað fyrir þá alla.Er engu líkara en óbreyttir þingmenn þori ekki að taka sjálfstæða afstöðu af ótta við forustuna.
Frelsinu úthýst í Sjálfstæðisflokknum
Ellert Scram fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í viðtali við Skjá 1,í þættinum Maður á mann sl. sunnudag,að Sjálfstæðisflokkurinn hefði villst af réttri braut. Frelsi einstaklingsins væri ekki lengur aðall flokksins. Þingmenn flokksins og almennir flokksmenn hefðu ekki lengur frelsi til þess að hafa sjálfstæðar skoðanir.Þar með hefði því dýrmætasta,frelsinu,verið varpað fyrir róða í þeim flokki.
Birt í Fréttablaðinu
25.mai 2004
Björgvin Guðmundsson
|