Ekki er unnt að segja,að viðbrögð ríkisstjórnarinnar í kennaradeilunni séu snögg,þegar upp úr viðræðum hefur slitnað og allt er komið í harðan hnút. Forsætisráðherra vildi ekkert tjá sig um deiluna á fimmtudag,þegar viðræður höfðu stöðvast. Hann sagði,að málið yrði rætt í ríkisstjórninni á föstudag. Það var gert og þar var samþykkt að forsætisráðherra mætti halda fund með deiluaðilum. Varla hefur þurft fund í ríkisstjórn til þess að ákveða það. Sennilega getur forsætisráðherra haldið fund án þess að fá leyfi ríkisstjórnarinnar til þess!Og ekki er forsætisráðherra að flýta sér mikið. Hann tilkynnir á föstudag að fundur verði haldinn á mánudag,þ.e. eftir 3 daga.Hvaða leikaraskapur er þetta? Hvers vegna er ekki haldinn fundur strax í dag,föstudag? Allir eru sammála um að deilan sé grafalvarleg og að hún sé komin í óleysanlegan hnút. En menn haga sér ekki í samræmi við það. Það er eins og mönnum liggi ekkert á. Verkfallið er búið að standa í 1 mánuð. Næsti samningafundur með sáttasemjara verður ekki fyrr en eftir 2 vikur.Einhvern tímann hefði nú verið hafður meiri hraði á í kjaradeilu. Einhvern tímann hefði verið haldinn fundur strax í dag og helgin notuð einnig.Maður fer að halda,að þetta sé eins og hjá Spaugstofunni, að það sé allt í lagi þó skólarnir séu lokaðir!Það virðist vera álit stjórnarherranna,bæði hjá ríki og sveitarfélögum.
Ljóst er,að ríkisstjórnin vill,að sem mest öngþveiti skapist áður en hún grípi inn í deiluna.Það á að koma vel fram,að ríkisstjórnin bjargi málum,þegar algert vandræðaástand hefur skapast. En þetta er óábyrg afstaða. Deilan leysist ekki nema ríkið láti einhverja peninga til sveitarfélaganna til þess að leysa málið. Og hún hefði getað látið þessa peninga af hendi strax í upphafi deilunnar í stað þess að bíða með það þar til allt er komið í öngþveiti og þar til skólabörnin hafa orðið fyrir alvarlegum skaða.
Björgvin Guðmundsson
" Einhvern tímann hefði verið haldinn fundur strax í dag og helgin notuð einnig. Maður fer að halda að þetta sé eins og hjá Spaugstofunni,að það sé allt í lagi þó skólarnir séu lokaðir! Það virðist vera álit stjórnarheranna,bæði hjá ríki og sveitarfélögum."
|