Formaður utanríkismálanefndar,Halldór Blöndal,hefur tilkynnt að hann vilji boða forsetaritara á fund nefndarinnar til þess að ræða skipan forseta Íslands í þróunaráð Indlands. Í viðtali við Stöð 2 lét hann orð falla um það, að forsetinn hefði ekki mátt taka sæti í þróunarráði Indlands.Alla vega hefði þurft að hafa samráð við utanríkisráðuneytið um það mál.
Íraksmálið ekki lagt fyrir utanríkismálanefnd!
Það mun aldrei hafa gerst áður að fulltrúi forseta Íslands hafi verið boðaður á fund utanríkismálanefndar enda heyrir forseti Íslands ekki undir alþingi. Hann hefur umboð sitt beint frá þjóðinni.Menn undrast það mjög, að utanríkismálanefnd skuli nú allt í einu vakna af værum blundi. Nefndin hefur sofið værum svefni og ekki sinnt þeim málum sem undir hana heyra heldur látið þau afskiptalaus. Kemur mönnum þar helst í hug innrásin í Írak og stuðningur Íslands við hana. Það mál átti að leggja fyrir utanríkismálanefnd lögum og reglum samkvæmt en var ekki gert. Málið var heldur ekki lagt fyrir ríkisstjórn en lögum samkvæmt átti einnig að leggja það mál fyrir ríkisstjórn. Tveir menn í ríkisstjórninni,þeir Davíð Oddsson,þá forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson,þáverandi utanríkisráðherra, ákváðu upp á sitt eindæmi að lýsa yfir stuðningi Íslands við árás á annað ríki.Þeir lögðu málið hvorki fyrir ríkisstjórn né utanríkismálanefnd og þaðan af síður létu þeir ræða málið á alþingi. Utanríkismálanefnd vissi,að málið heyrði undir nefndina en það hvarflaði ekki að þáverandi formanni nefndarinnar að taka það fyrir þar.
Óvild í garð forseta Íslands
En hvers vegna er formanni utanríkismálanefndar nú mikið í mun að ræða mál forseta Íslands í utanríkismálanefnd.? Jú,það er vegna óvildar formannsins í garð forsetans. Það er óásættanlegt,að þingmenn Sjálfstæðisflokksins láti gamla óvild í garð Ólafs Ragnars Grímssonar koma fram í störfum sínum í dag.
Björgvin Guðmundsson
|