Ísland brýtur mannréttindi með framkvæmd kvótakerfisins í sjávarútveginum.Það er úrskurður Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.Mannréttindanefndin segir, að kvótakerfið sé ósanngjarnt, það hygli þeim,sem upphaflega fengu úthlutað varanlegum kvóta en sumir hafi engan kvóta og geti ekki stundað útgerð og sjósókn þó þeir haf menntað sig til þess og eignast fiskiskip.Tveir sjómenn töldu brotið á sér þegar þeim var synjað um veiðiheimildir og þeir kærðu málið til Mannréttindanefndar Sþ. Nefndin hefur nú fellt úrskurð sinn.Nefndin gagnrýnir m.a. framsalið á kvótunum. Kvótar,sem upprunalegir handhafar nýti ekki lengur, gangi kaupum og sölum á markaðsverði og á leigumarkaði í stað þess að þeir renni til ríkisins á ný og sé úthlutað að nýju með réttlátum og sanngjörnum hætti.
Allir eiga að sitja við sama borð
Ragnar Aaðalsteinsson hrl. segir,að ef Ísland taki ekki tillit til úrskurðar Mannréttindanefndar Sþ. verði Ísland úthrópað á alþjóðavettvangi. Mannréttindi eru nú forgangsmál hjá íslenska utanríkisráðuneytinu.Ísland sækist eftir sæti í Öryggisráði Sþ. og leitar stuðnings hjá mörgum ríkjum, sem búa við skert mannréttindi. Ísland berst fyrir mannréttindum á alþjóðavettvangi. Ísland getur því ekki hundsað Mannréttindanefnd Sþ. Ísland verður að taka tillit til úrskurðar mannaréttindanefndarinnar með því að breyta kvótakerfinu þannig að það byggist á sanngirni og allir borgarar landsins sitji við sama borð.
Brot á atjórnarskránni
Það kemur ekki á óvart,að Mannréttindanefnd Sþ. skuli telja framkvæmd kvótakerfisins brot á mannréttindum. Margir hafa bent á, að að úthlutun gjafakvóta til fárra útvaldra og brask með þá feli í sér eitthvert mesta ranglæti Íslandssögunnar.Árið 2000 felldi Hæstiréttur þann dóm, að það hefði verið ólögmætt að synja Valdimar Jóhannessyni um leyfi til fiskveiða.Sú synjun bryti gegn jafnréttisákvæði í 65.grein stjórnarskrárinnar. Nú bætist það við, að ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna telur kerfið mannréttindabrot.
Margar leiðir til að leiðrétta kerfið
Það verður erfitt að leiðrétta kerfið eins og Mannréttindanefnd Sþ. fer fram á. Til þess eru þó margar leiðir: Ríkið getur innkallað allar veiðiheimildir á ákveðnum tíma og úthlutað þeim á ný á sanngjarnan hátt, þannig að allir eigi kost á því að fá veiðiheimildir.Einnig er hugsanlegt að bjóða upp allar veiðiheimildir. Árni Páll Árnason alþingismaður varpaði þeirri hugmynd fram í Silfri Egils, að aukning veiðiheimilda vegna niðurskurðarins sl. ár verði látin ganga til nýrra aðila til þess að koma til móts við úrskurð Mannréttindanefndar Sþ.
Framangreindar hugmyndir um endurbætur á kerfinu byggjast allar á því að kvótakerfinu verði haldið. En síðan væri róttækasta hugmyndin sú, að afnema kvótakerfið og taka upp sóknardagakerfi í staðinn eins og Færeyingar hafa.
Fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar
Varðhundar óbreytts kvótakerfis berjast nú gegn því að nokkrar breytingar verði gerðar á kerfinu. Þeir reyna að gera lítið úr úrskurði Mannréttindanefndar Sþ. og gefa til kynna, að ekki sé nauðsynlegt að fara eftir úrskurði nefndarinnar.En það er mikill misskilningur. Það verður að fara eftir áliti nefndarinnar.Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á þessu því betra.Útgerðarmenn segja, að það verði rothögg fyrir þá fjárhagslega, ef kvótakerfinu verður umbylt.En þeir hafa alltaf vitað það, að fiskurinn í sjónum væri sameign þjóðarinnar og að þeir hefðu veiðiheimildir aðeins að láni en ekki til eignar. Þeir hafa alltaf getað átt von á því að eigandinn,ríkið,innkallaði veiðiheimildirnar. Sjálfsagt er að koma til móts við útgerðarmenn með því að gefa þeim góðan aðlögunatíma fyrir þá breytingu á kvótakerfinu, sem þarf að gera.En breyting verður ekki umflúin.Forseti alþingis ,Sturla Böðvarsson,einn af forustumönnum Sjálfstæðisflokksins,gerir sér þetta ljóst. Hann flutti ræðu og sagði,að stokka yrði upp kvótakerfið.
Hver eru áhrifin á byggðir landsins?
Í stjórnarsáttmálanum er ákvæði þess efnis,að athuga skuli hvernig kvótkerfið hafi farið með byggðir landsins. Samfara þeirri athugun er unnt að kanna á hvern hátt best sé að bregðast við samþykkt Mannréttindanefndar Sþ Í þessari grein hefur verið fjallað um nokkrar leiðir,sem fara má til þess að endurbæta kerfið og gera það sanngjarnt.Ég tel víst,að Samfylkingin vilji fara að vilja Mannréttindanefndar Sþ. og Sjálfstæðisflokkurinn getur heldur ekki staðið á móti því.Það verður að breyta kerfinu.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 15.feb. 2008 |