Í lögum um almannatryggingar segir, að lífeyrir aldraðra og öryrkja eigi að hækka miðað við launaþróun en þó aldrei að hækka minna en nemur verðlagshækkunum. Eftir þessu hefur ekki verið farið í 3 ár og bankahruninu borið við. Því var lofað, að skerðing á kjörum lífeyrisþega yrði tímabundin og undirskilið, að kjörin yrðu leiðrétt á ný, þegar ástand efnahagsmála lagaðist. Kjararáð hefur nú ákveðið að hækka laun ráðherra, alþingismanna og embættismanna, þar eð ástandið hafi lagast. En ekkert bólar á kjaraleiðréttingum til handa ölduðum og öryrkjum.Þvert á móti bendir allt til þess, að núverandi ríkisstjórn ætli að reyna að koma í veg fyrir kjaraleiðréttingu lífeyrisþega á yfirstandandi ári og jafnvel einnig á næsta ári.Það er spurning hvort það er ekki mannréttindabrot að hækka laun tekjuhæstu embættismanna og stjórnmálamanna landsins en hindra um leið kjaraleiðréttingu þeirra tekjulægstu, lífeyrisþega, sem þeir eiga þó fullan rétt á.Það er ekki fjárskortur, þegar þarf að hækka laun þeirra, sem mest hafa.En þegar kemur að öldruðum og öryrkjum eru engir peningar til
!Frá áramótum 2008/2009 og fram til dagsins í dag nemur kjaraskerðing og kjaragliðnun hjá öldruðum og öryrkjum 30%.Með kjaragliðnun er átt við, að bætur lífeyrisþega hækka minna en kaup launafólks, það er lífeyrisþegar dragast aftur úr launþegum að því er kjör varðar.Kjaragliðnun nemur 20% sl. 3 ár en verðlagsuppbót, sem lífeyrisþegar áttu rétt á, hefur verið skert um 10%. Öryrkjabandalagið krefst þess, að þessi kjaraskerðing og kjaragliðnun verði leiðrétt áður en farið verði að breyta kerfi almannatrygginga.Bandalagið telur það ekki forgangsmál að sameina einhverja bótaflokka almannatrygginga. Bandalagið telur það forgangsmál að hækka lífeyri öryrkja og aldraðra.Ég er sammála þessu. Ríkisstjórnin verður strax að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja.Það skiptir engu máli þó ekki séu fjárveitingar fyrir því í fjárlögum fyrir 2012. Það verður einfaldlega að samþykkja aukafjárveitingu á alþingi. Það verður að gerast strax. Ef ríkisstjórnin vill standa undir nafni verður hún strax að beita sér fyrir þessum leiðréttingum.
Starfshópur um endurskoðun almannatrygginga vill leggja niður grunnlífeyri. Það kemur ekki til greina. Grunnlífeyrir á að vera “ heilagur” það er, það á ekki að hreyfa við honum.Greiðslur úr lífeyrissjóði eiga ekki að skerða grunnlífeyri. Allir þeir sem hafa greitt til almannatrygginga, beint og óbeint, alla sína starfsævi eiga að hafa grunnlífeyri. Almannatryggingar voru stofnaðar fyrir alla án tillits til stéttar eða efnahags ( eins og nýsköpunarstjórnin orðaði það). Það var til skammar, að Árni Páll Árnason skyldi sem félagsmálaráðherra láta lífeyrissjóðsgreiðslur fara að skerða grunnlífeyrinn 2009.Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, skrifaði grein í Morgunblaðið um grunnlífeyrinn 5.janúar sl. Þar sagði hún: “Við eldri borgarar teljum, að allir eigi rétt á grunnlífeyri frá TR”. En þegar komið er að því að endurreisa grunnlífeyrinn ætlar endurskoðunarnefnd almannatrygginga að gera sér lítið fyrir og afnema grunnlífeyri! Einnig talar endurskoðunarnefndin um að afnema frítekjumörk! Það virðist ekki heil brú í starfi nefndarinnar. Ef meining nefndarinnar er sú að fara í orðaleiki um hugtök eins og frítekjumark og grunnlífeyri er verr af stað farið en heima setið.
Ég legg til,að gert verði hlé á störfum starfshópsins um endurskoðun almannatrygginga þar til búið er að leiðrétta kjaraskerðinguna, sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir sl. 3 ár.Við höfum ekkert að gera við einhverjar tilfæringar í kerfi almannatrygginga eins og sameiningu 3ja bótaflokka í einn.Og við viljum halda grunnlífeyrinum eins og formaður LEB leggur áherslu á í grein sinni.Krafa okkar er kjarabætur og leiðrétting kjaraskerðingar en tilfærslur innan almannatrygginga mega bíða.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Morgunblaðinu 21.feb. 2012
|