Árni Þór Árnason forseti borgarstjórnar Reykjavíkur fer strax eftir áramót til Brussel til þess að kynna sér áhrif tilskipana ESB á íslensk sveitarfélög.Mun hann verða þar í hálft ár. Hér er um gott framtak að ræða,sem vert er að vekja athygli á, þar eð tilskipanir ESB hafa mjög mikil áhrif á sveitarfélögin ekki síður en á ríkið og oft frétta sveitarfélögin ekki af nýjum tilskipunum fyrr en allt of seint,þegar engum breytingum er unnt að koma við. Getur það verið mjög kostnaðarsamt fyrir sveitarfélögin.Nokkur íslensk sveitarfélög hafa sýnt ESB mikinn áhuga,m.a. Akranes en Gísli Gíslason bæjarstjóri þar dvaldist um hríð í Brussel til þess að kynna sér áhrif tilskipana ESB á sveitarfélögin.
Utanríkisráðuneytið hóf haustið 2001 að kanna sérstaklega áhrif EES-samningsins á íslensk sveitarfélög.Gerði ráðuneytið samkomulag við Committee of the Regions hjá Evrópusambandinu, þ.e. landsvæðanefndina um að nefndin sendi ráðuneytinu jafnóðum upplýsingar um allar tillögur að nýjum tilskipunum og lögum, sem landsvæðanefndinni berast frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en landsvæðanefndin er nokkurs konar sveitarstjórnarráð Evrópusambandsins. En Evrópusambandið sendir landsvæðanefndinni til umsagnar allar tillögur að nýjum tilskipunum og lögum, sem varða sveitarfélögin. Mjög mikilvægt er, að sveitarfélögin fái vitnesku um tillögur að nýjum tilskipunum áður en þær eru endanlega afgreiddar hjá Evrópusambandinu. Ef hafa á áhrif á mótun nýrra tilskipana þarf að gera það strax á undirbúningsstigi.
EES- samningurinn hefur víðtæk áhrif á íslensk sveitarfélög. Þeir málaflokkar, sem skipta mestu máli í því sambandi eru þessir: Umhverfismál,félags-og vinnumál, orkumál,opinber innkaup, og opinberir styrkir. Fleiri mál EES- samningsins hafa áhrif á sveitarfélögin. Sveitarfélög og aðilar á vegum þeirra hafa getað tekið þátt í ýmsum verkefnum Evrópusambandsins. Hafa fengist veruleg fjárframlög frá Evrópusambandinu vegna þeirra. Unnt væri að stórauka þáttöku íslenskra sveitarfélaga í slíkum verkefnum. Íslands fær ekki styrki frá Evrópusambandinu vegna þáttöku í verkefnum á vegum byggðaáætlunar ESB en gæti samt haft mikið gagn af þáttöku í þeim.
Samband sveitarfélaga í Noregi hefur sérstaka skrifstofu í Brussel,sem fylgist með tilkomu nýrra tilskipana sem varða sveitarfélögin. En einnig hafa nokkrar stórar borgir í Noregi starfsmenn í Brussel,sem hafa sömu verkefni með höndum en sinna margir hverjir einnig ýmsum viðskiptamálum fyrir viðkomandi borgir. Norðmenn fylgjast mjög vel með öllu sem gerist hjá ESB og ætla að vera alveg tilbúnir þegar Noregur gerist aðili að sambandinu.Samand íslenskra sveitarfélaga þyrfti að fá fastan starfsmann í Brussel,sem fylgst gæti með störfum ESB allt árið um kring. Það mundi fljótlega spara sveitarfélögunum mikla fjármuni.
Björgvin Guðmundsson
Birt í Fréttablaðinu 20.des. 2004
|